Sérstök framlög skv. 20. gr. a laga um almannatryggingar

Sérstakt framlag til framfærslu barns skv. 20. gr. a almannatryggingarlaga

Samkvæmt lögum um almannatryggingar er hægt að beina til sýslumanns beiðni um sérstakt framlag

  • vegna barns sem misst hefur annað foreldri sitt
  • vegna barns sem er ófeðrað
  • ef móður barns nýtur ekki við vegna sérstakra eða óvenjulegra aðstæðna.

Um er að ræða nýja reglu, samkvæmt lögum 127/2018 um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 (barnalífeyrir) og tók hún gildi 28. desember 2018.

Skilyrði fyrir rétti til framlags er að barnalífeyrir sé greiddur með barninu.

Erindið er lagt fram á þar til gerðu eyðublaði þar sem fram kemur hvaða fylgiskjala er óskað.

Vegna hvaða útgjalda er hægt að óska eftir sérstöku framlagi.

Framlags er hægt að óska vegna skírnar, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.

Framlag vegna skírnar og fermingar á ekki eingöngu við um athafnir þjóðkirkjunnar, það á einnig við um sambærilegar athafnir annarra trúar- og lífsskoðunarfélaga.

Um fjárhæð framlags gilda viðmiðunarfjárhæðir sem gefnar eru út árlega af dómsmálaráðuneytinu vegna sérstakra framlaga á grundvelli 60. gr. barnalaga 76/2003. Fjárhæðirnar má sjá á upplýsingasíðu vegna 60. gr. barnalaga. Sömuleiðis verður að líta svo á að önnur sjónarmið sem beitt hefur við ákvarðanir sýslumanna á sérstöku framlagi samkvæmt 60. gr. barnalaga, eigi við um ákvarðanir samkvæmt 20. gr. a í lögum um almannatryggingar.

Heimildin er vegna útgjalda af sérstöku tilefni. Er þannig ekki átt við útgjöld vegna almennrar framfærslu barns, svo sem kostnaðar vegna tónlistarnáms, íþróttaiðkunar, og vegna almennra tannviðgerða. Þá hefur verið litið svo á að langvarandi eða varanleg veikindi barns heyri ekki undir reglur um sérstakt framlag samkvæmt barnalögum, einungis tímabundin eða tilfallandi veikindi.

Tímamörk þess að leggja fram kröfu.

Samkvæmt 20. gr. a almannatryggingarlaga skal senda sýslumanni beiðni um framlag innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu. Almennt er því miðað við að krafa skuli berast innan þriggja mánaða frá athafnardegi eða dagsetningu reiknings eða kvittunar.

Viðurkennt er að eðlilegt kunni að vera að bíða með kröfu vegna samfelldrar meðferðar, svo sem tannréttinga, þar til meðferð er lokið. Þegar um tannréttingar er að ræða er litið svo á að samfelldri meðferð ljúki þegar föst tæki eru fjarlægð af tönnum. Beiðni um framlag þarf því að leggja fram áður en þrír mánuðir eru liðnir frá því tímamarki. Með beiðni vegna tannréttinga þarf að leggja fram bréf eða vottorð frá tannréttingalækni, þar sem framvindu meðferðar er lýst, m.a. varðandi föst tæki. Leggja þarf fram yfirlit eða kvittanir/reikninga frá tannréttingalækni til staðfestingar á þeim útgjöldum sem um ræðir.

Þegar um tannréttingar er að ræða er litið svo á að meðferð sé samfelld þann tíma frá því að föst tæki eru sett í munn og þar til þau eru fjarlægð. Beiðni um framlag þarf því að leggja fram áður en þrír mánuðir eru liðnir frá því að föst tæki eru fjarlægð.

Málsmeðferð sýslumanns.

Málsmeðferð sýslumanns felst í því að aflað er upplýsinga frá Tryggingastofnun ríkisins um greiðslu barnalífeyris og um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands ef um tannréttingar er að ræða. Ef sýslumaður telur þörf á frekari gögnum eða upplýsingum frá málshefjanda, er haft samband og þeirra óskað. Þegar nægileg gögn liggja fyrir úrskurðar sýslumaður um kröfuna. Úrskurður er sendur málshefjanda í ábyrgðarbréfi.

Eftir sýslumaður hefur úrskurðað um framlagið, getur Tryggingastofnun ríkisins ákveðið greiðslu á framlaginu til umsækjanda. Umsækjandi þarf því að sækja um greiðslu hjá Tryggingastofnun ríkisins, á Mínum síðum, að fengnum úrskurði sýslumanns. Bent er á www.tr.is

Ef sýslumaður hafnar framlagi, eða fellst ekki á kröfuna að fullu, er hægt að kæra úrskurð hans til Úrskurðarnefndar velferðarmála innan þriggja mánaða frá dagsetningu hans. Bent er á www.urvel.is