Sambúðarslit

Ef sambúðaraðilar eiga ekki saman börn þurfa þeir ekki að leita til sýslumanns vegna sambúðarslita. Þá er nægilegt að tilkynna um breytt lögheimili til Þjóðskrár Íslands.

Sambúðarslit þegar aðilar eiga saman barn eða börn

Þegar aðilar sem eiga saman börn slíta sambúð sem skráð hefur verið í þjóðskrá, er þeim skylt að ákveða hvernig fari með forsjá barns eða barna, það er hvort hún verði hjá öðru foreldri eða sé sameiginleg svo og hvernig meðlagsgreiðslum með barni eða börnum skuli háttað. Sjá nánari umfjöllun um forsjá og meðlag.

Fyrirtaka hjá sýslumanni

Þegar aðilar mæta hjá sýslumanni, hvort heldur er saman eða hvor í sínu lagi, þarfa að liggja fyrir fæðingarvottorð barns/barna, sem gefið er út af Þjóðskrá Íslands.

Deilur um forsjá barns

Ef foreldra greinir á um forsjá barns og þeir ná ekki sátt verður að leggja ágreining þeirra fyrir dómstóla.

Skjal til staðfestingar á sambúðarslitum

Ef aðilar eru sammála um hvernig forsjá barns/barna og meðlagsgreiðslum skuli háttað gefur sýslumaður út skjal til staðfestingar á sambúðarslitum.

Tilkynning til Þjóðskrár Íslands

Sýslumaður sendir Þjóðskrá Íslands upplýsingar um sambúðarslitin, hvernig forsjá barns eða barna er háttað og hvar það eða þau eigi lögheimili.

Greiðsla meðlags

Rétthafi meðlagsgreiðslna samkvæmt skjali til staðfestu sambúðarslita getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og óskað eftir að stofnunin greiði honum meðlag samkvæmt skjalinu.

Rétt er að árétta að Tryggingastofnun greiðir einungis einfalt meðlag með hverju barni. Hafi foreldrar samið eða sýslumaður úrskurðað um viðbótarmeðlag, sem ekki fæst greitt úr hendi meðlagsskylds foreldris, verður það foreldri sem á rétt til greiðslunnar sjálft að annast innheimtu þess.

Ef aðilar skrá sig í sambúð að nýju, sem gera má á vef Þjóðskrár Íslands, verður forsjá sameiginleg að nýju og staðfesting sýslumanns á sambúðarslitunum fellur niður.


Uppfært 20.07.2015.