Brottnám barna

sem flutt hafa verið með ólögmætum hætti úr landi eða til landsins

Ísland er aðili að tveimur milliríkjasamningum sem ætlað er að tryggja hagsmuni barns sem flutt hefur verið með ólögmætum hætti úr einu samningsríki til annars.  Samningar þessir eru:

  1. Evrópuráðssamningur um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endurheimt forsjár barna sem gerður var í Lúxemborg 20. maí 1980 (Evrópusamningurinn)
  2. Samningur um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa sem gerður var í Haag 25. október 1980 (Haagsamningurinn).   
Markmið samninganna að leysa vandamál sem upp koma þegar börn eru flutt með ólögmætum hætti frá einu landi til annars eða þeim er haldið á ólögmætan hátt gegn vilja forsjárforeldris. Gildissvið samninganna takmarkast þó ekki við foreldra sem fara með forsjá barns í hefðbundinni merkingu þess hugtaks. Þeir geta einnig tekið til annarra, hvort sem um er að ræða einstaklinga, stofnanir eða opinbera aðila sem hafa svipaðan rétt til að annast barn og forsjá felur í sér, sbr. c-lið 1. gr. Evrópusamningsins og a-lið 1. mgr. 3. gr. og a-lið 5. gr. Haagsamningsins.  Báðir samningarnir eiga við um börn sem ekki hafa náð 16 ára aldri.  

Samkvæmt báðum samningunum skulu samningsríki einnig stuðla að framgangi umgengnisréttar, sbr. 11. gr. Evrópusamningsins og 21. gr. Haagsamningsins. Haagsamningurinn skuldbindur þó ekki samningsríki til að hlutast til um afhendingu á barni til fullnustu á umgengnisrétti en samkvæmt Evrópusamningnum skulu samningríki viðurkenna og fullnægja ákvörðunum um umgengnisrétt á sama hátt og ákvörðunum um forsjá. Þau hafa þó heimild til að gera breytingar á inntaki umgengnisréttarins með tilliti til aðstæðna. Í lögum nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. (brottnámslögum) er mælt fyrir um hvernig hagað skuli meðferð máls vegna brottnáms barns til Íslands eða hald barns á Íslandi. 

Samningarnir eiga því bæði við um afhendingu á börnum sem flutt eru með ólögmætum hætti á milli landa og eins til þess að aðstoða við að koma á umgengni. 

Á ríkjum sem gerst hafa aðilar að Haagsamningnum hvílir skylda til að tilnefna móttökustjórnvald. Móttökustjórnvöld ríkjanna vinna saman að þeim málum sem heyra undir samningana. Meginhlutverk móttökustjórnvalds er að móttaka erindi, frá einstaklingum og erlendum ríkjum, og senda erindi, m.a. beiðni foreldris um afhendingu brottnuminna barna og umgengni, til réttra stjórnvalda, dómstóla eða einstaklinga, veita aðstoð og miðla upplýsingum um mál er heyra undir samningana.  Á Íslandi er dómsmálaráðuneytið móttökustjórnvald.

Sjá nánari upplýsingar, eyðublöð o.fl.  á vef dómsmálaráðuneytisins hér.


Uppf. 30.08.2017

Barnalög 76/2003 Acton the Recognition and Enforcement of Foreign Decisions on the Custody ofChildren and the Return of Abducted Children, etc. No. 160 27th December 1995

Eyðublöð Upplýsingar um brottnámsmál