Fjölskyldumál

Almennt um fjölskyldumál (sifjamál)

Hvaða mál flokkast sem fjölskyldumál (sifjamál)? 

Oft er miðað við að málefni sem varða fjölskyldur og fjölskyldutengsl greinist í grófum dráttum í hjúskaparrétt eða hjúskaparmál, sambúðarrétt og barnarétt. 

Hjúskaparmál. 

Hjúskaparréttur fjallar um stofnun hjúskapar eða hjónabands, réttindi og skyldur hjóna á meðan á hjúskap stendur og slit hjúskapar. Reglur um hjúskap er að finna að meginstefnu í einum lagabálki, þ.e. hjúskaparlögum nr. 31/1993

Sambúðarmál – óvígð sambúð. 

Um óvígða sambúð er ekki fjallað heildstætt í einum lagabálki, eins og gert er um hjúskap enda nýtur fólk í óvígðri sambúð ekki allra sömu réttinda og fólk sem er í hjúskap. Þannig gilda ekki í óvígðri sambúð reglur um gagnkvæma framfærsluskyldu og erfðarétt, eins og á milli hjóna. Þá gildir helmingaskiptaregla ekki við slit á óvígði sambúð. Óvígðri sambúð er þó að ýmsu leyti jafnað til hjúskapar, þ.e. sömu reglur gilda, einkum varðandi málefni barna. 

Barnamál – Barnaréttur. 

Orðið barnaréttur er fyrst og fremst notað um þær réttarreglur á sviði fjölskylduréttar sem fjalla sérstaklega um réttarlega stöðu barna, hvort heldur er gagnvart foreldrum eða öðrum.