Tilkynning andláts

Öll andlát sem tilkynna ber hérlendis skulu tilkynnt á skrifstofu sýslumanns í umdæmi þar sem hinn látni átti lögheimili þegar hann lést. 

Hver tilkynnir andlát?

Skylda til að tilkynna andlát hvílir á almennt á erfingjum hins látna, hvort heldur sem er lögerfingjum eða bréferfingjum. Lögerfingjar eru maki, börn, foreldrar, afi og amma og niðjar þeirra. Bréferfingi er sá sem tekur arf samkvæmt erfðaskrá.

Dánarvottorð

Þegar andlát er tilkynnt þarf að hafa meðferðis dánarvottorð, annað hvort frá lækni á sjúkrahúsi þar sem hinn látni lést eða frá lækni sem annaðist hinn látna.

Vottorð um tilkynningu andláts

Sýslumaður gefur út vottorð um að andlát hafi verið tilkynnt og er vottorðið afhent tilkynnanda eða þeim sem sér um útför hins látna. Útför má ekki fara fram nema vottorð sýslumanns um tilkynningu andláts liggi fyrir.

Upplýsingar við tilkynningu um andlát

Tilkynnnandi skal greina frá nafni, kennitölu, heimili og tengslum við hinn látna. Þá ber tilkynnanda að veita upplýsingar um hverjir séu lögerfingjar hins látna og hvar þeir búa, um hjúskaparstöðu hins látna eða hvort hann sitji í óskiptu búi, hvort hinn látni hafi látið eftir sig erfðaskrá, hverjar helstu eignir hins látna séu og hver fari með umráð þeirra.  Ef ekki er fært að veita þessar upplýsingar við tilkynningu andláts er sýslumann heimilt að veita tilkynnanda eða erfingjum skamman frest til að afla þessara upplýsinga.
Sýslumanni ber að leiðbeina tilkynnanda um hvernig standa skal að skiptum á búi og fela honum að kynna það öðrum erfingjum hins látna. 

Meðferð eigna eftir andlát

Sá sýslumaður, sem dánarbú á undir, fer með forræði búsins frá andláti og þar til aðrar ráðstafanir eru gerðar. Aðstandendum hins látna eða erfingjum er því óheimilt að ráðstafa eignum hans eða taka út af bankareikningum búsins nema með sérstakri heimild sýslumanns. 

Útfararkostnaður

Sýslumaður getur heimilað að teknir séu fjármunir af bankainnstæðum hins látna til þess að greiða kostnað við útför hins látna. Sá sem fær slíka úttektarheimild ber að gera sýslumanni grein fyrir því hvernig fjármununum var ráðstafað.

Kostnaður

Ekki er tekið gjald fyrir útgáfu staðfestingar sýslumanns á móttöku dánarvottorðs.