Seta í óskiptu búi

Ef einstaklingur var í hjúskap þegar hann lést getur eftirlifandi maki sótt um leyfi til setu í óskiptu búi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Felur það í sér að eignum og skuldum hins látna verður ekki skipt milli erfingja heldur tekur eftirlifandi maki við þeim. Sækja skal um slíkt leyfi hjá sýslumanni í umdæmi þar sem hinn látni átti lögheimili á andlátsdegi, innan fjögurra mánaða frá andláti. Í umsókn þurfa m.a. að koma fram upplýsingar um eignir og skuldir hins látna.
Að öðru leyti eru skilyrði þess að sækja megi um leyfi til setu í óskiptu búi sem hér segir:

Hvenær er hægt að óska eftir leyfi til setu í óskiptu búi?

Hinn látni og eftirlifandi maki áttu saman börn

Ef hinn látni og eftirlifandi maki áttu saman börn á maki rétt á að sitja í óskiptu búi með sameiginlegum börnum (niðjum). Þetta á ekki við hafi hinn látni mælt svo fyrir í erfðaskrá að skipti skuli fara fram.

Hinn látni átti börn, sem ekki eru börn eftirlifandi maka

 • Erfðaskrá
  Hafi hinn látni látið eftir sig erfðaskrá þar sem segir að eftirlifandi maka hans sé heimilt að sitja í óskiptu búi með fjárráða og ófjáráða börnum hins látna, á maki rétt á því, án þess að samþykki barna þurfi til að koma.
 • Forsjá barna hins látna hjá eftirlifandi maka
  Ef eftirlifandi maki fer með forsjá eða lögráð ófjárráða stjúpbarna eða niðja sinna á hann rétt á leyfi til setu í óskiptu búi án þess að samþykki þurfi að koma til.
 • Forsjá barna hins látna hjá öðrum en eftirlifandi maka
  Ef eftirlifandi maki fer ekki með forsjá ófjárráða barna hins látna er honum því aðeins heimilt að sitja í óskiptu búi með þeim að forsjárforeldri eða lögráðamaður barnanna samþykki það.
 • Börn hins látna sem ekki eru börn eftirlifandi maka
  Ef börn eða niðjar sem taka arf eftir hinn látnaeru fjárráða er maka heimilt að sitja í óskiptu búi ef þau samþykkja það. Samþykki þarf að koma fram með undirritun þess sem veitir samþykki á beiðni (umsóknareyðublaði í dálknum hér til hægri) um leyfi til setu í óskiptu búi.

Ef sýslumaður telur að skilyrði séu fyrir leyfi til setu í óskiptu búi gefur hann út sérstakt leyfisbréf til handa eftirlifandi maka

Hvað felur leyfi til setu í óskiptu búi í sér?

Í stuttu máli felur leyfið í sér að eftirlifandi maki ræður einn yfir eignum sínum og hins látna. Hann þarf ekki að fá leyfi eða samþykki annarra erfingja til þess að ráðstafa eignum. Viðkomandi tekur jafnframt sjálfkrafa á sig ábyrgð á öllum skuldum hins látna.

Þinglýsa þarf leyfi til setu í óskiptu búi á fasteignir og skip yfir fimm brúttólestir sem voru að hluta eða öllu leyti þinglýst eign hins látna og skrá aðrar eignir eða verðmæti á nafn viðkomandi.

Ekki er greitt stimpilgjald við þinglýsingu búsetuleyfis en greiða ber þinglýsingargjald.


Uppfært 21.11.2019.