Opinber skipti dánarbúa

Sú leið sem sjaldnast er farin við skipti á dánarbúum, er að fram fari opinber skipti á þeim.

Hvenær fara opinber skipti fram?

1) Sýslumaður krefst opinberra skipta

Sýslumaður getur krafist opinberra skipta á grundvelli nokkurra ástæðna, þar á meðal ef erfingjar hafa ekki orðið við áskorun hans um að hefjast handa við skipti.

2) Erfingjar krefjast opinberra skipta

Erfingjar geta krafist opinberra skipta og geta ástæður þess verið margar. Má þar nefna að eignir búsins hrökkvi ekki fyrir skuldum, erfingjar treysta sér ekki til að taka ábyrgð á skuldum eða erfingjar eru ekki sammála um skiptin. Hver erfingi fyrir sig á rétt á því að krefjast þess að opinber skipti fari fram og nægir að einn þeirra biðji um það.

Beiðni um opinber skipti

Beiðni um opinber skipti skal senda héraðsdómstóli í því umdæmi sem hinn látni átti síðast lögheimili.

Úrskurður um beiðni

Eftir að héraðsdómi hefur borist beiðni um opinber skipti er hún tekin fyrir í sérstöku réttarhaldi og í framhaldi er kveðinn upp úrskurður um hana.

Skiptastjóri

Ef beiðni um opinber skipti er tekin til greina skipar héraðsdómari sérstakan skiptastjóra til að framkvæma skiptin og er kostnaður af störfum hans greiddur af eignum dánarbúsins.

Innköllun

Ef erfingjar lýsa því yfir að þeir taki ekki ábyrgð á skuldbindingum búsins gefur skiptastjóri út innköllun sem birt er tvisvar sinnum í Lögbirtingablaði. Í innköllun er skorað á þá sem telja sig eiga kröfur á hendur búinu að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra innan tveggja mánaða frá því að innköllunin birtist í fyrra skiptið.

Lok opinberra skipta

Opinberum skiptum getur lokið á eftirfarandi hátt:

Án úthlutunar arfs

Eignir duga ekki fyrir fram komnum kröfum. Hafi erfingjar ekki lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum dánarbús við opinber skipti og í ljós kemur eftir lok kröfulýsingarfrests að eignir þess nægja ekki fyrir skuldum þá fer fram úthlutun upp í kröfur eins og ef um þrotabú væri að ræða.

Lok með úthlutun arfs til erfingja

Þegar skiptastjóri hefur lokið við að greiða allar kröfur á hendur dánarbúi eða tekið frá fjármuni til þess að mæta þeim getur hann lokið opinberum skiptum með úthlutun til erfingja.

Uppfært 27. ágúst 2008