Erfðafjárskattur

Um erfðafjárskatt gilda lög nr. 14/2004 um erfðafjárskatt með síðari breytingum. Samkvæmt þeim ber að greiða skatt, erfðafjárskatt, af öllum fjárverðmætum sem við skipti á dánarbúi manns hverfa til erfingja. 

Skattstofn, fjárhæð og undanþágur

Erfðafjárskattur nemur 10% af skattstofni dánarbús. Engan erfðafjárskatt skal greiða af fyrstu 1.500.000 kr. í skattstofni dánarbús þeirra sem létust 31. desember 2020 eða fyrr. Við skipti á dánarbúum þeirra sem andast 1. janúar 2021 eða síðar og búskipta þeirra sem hafa heimild til setu í óskiptu búi fari þau fram eftir 1. janúar 2021 skal engan erfðafjárskatt greiða af fyrstu 5.000.000 kr. í skattstofni dánarbús.

Skattstofn erfðafjárskatts er heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og útfararkostnaði.

Undanþegnir skyldu til greiðslu erfðafjárskatts skv. 2. mgr. 2. gr. laganna eru maki arfleifanda og sambúðarmaki, sem stofnað hefur til óvígðrar sambúðar við arfleifanda og tekur arf eftir hann samkvæmt erfðaskrá þar sem stöðu hans sem sambúðarmaka er ótvírætt getið.

Erfðafjárskýrsla

Erfingjum ber að greiða erfðafjárskatt af þeim fjármunum sem til þeirra renna og verða þeir að fylla út sérstakt eyðublað, erfðafjárskýrslu, með ítarlegu yfirliti um eignir og skuldir dánarbúsins.  
Að jafnaði er gert ráð fyrir að erfingjar gangi frá einkaskiptagerð þar sem tilgreindar eru eignir og skuldir búsins og hvernig þeim er skipt milli erfingja. Skv. 4.  mgr.  93. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum er sýslumanni heimilt að ósk erfingja að láta hjá líða að krefja þá um einkaskiptagerð ef honum þykja nægar upplýsingar koma fram í erfðafjárskýrslu um hinn látna, erfingja hans, eignir búsins og skuldbindingar þess.  Ef einkaskiptagerð er ekki lögð fyrir sýslumann skal litið svo á að erfingjar hafi fengið allar eignir búsins lagðar út eftir arfshlutföllum. 

Skil erfðafjárskýrslu, meðferð sýslumanns og greiðsla erfðafjárskatts og skiptagjalds

Þegar erfðafjárskýrslu er skilað til sýslumanns skulu allir erfingjar hafa undirritað hana (eða senda fullgilt umboð) og með henni fylgja staðfest afrit a.m.k. þriggja síðustu skattframtala arfleifanda.  Ef á reynir  er erfingjum skylt að láta sýslumönnum í té ókeypis og í því formi sem óskað er allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er álagning skattsins kann að grundvallast á og unnt er að láta þeim í té.  Má þar nefna bankayfirlit, yfirlit um útfararkostnað og önnur slík gögn. 

Sýslumaður skal svo fljótt sem auðið er yfirfara erfðafjárskýrslu og gæta þess sérstaklega að hún sé í samræmi við skiptagerð viðkomandi dánarbús, ef gengið hefur verið frá skiptagerð. Telji sýslumaður skýrslu áfátt getur hann veitt viðkomandi aðilum tiltekinn frest til að bæta úr eða leiðrétt sjálfur séu ágallar smávægilegir. Þegar sýslumaður hefur yfirfarið skýrsluna og telur hana fullnægjandi skal hann ákvarða erfðafjárskatt hvers erfingja, árita skýrsluna og tilkynna það hverjum erfingja fyrir sig.  Jafnframt leggur sýslumaður skattinn á í tekjubókhaldskerfi ríkisins. Gjalddagi erfðafjárskatts er tíu dögum eftir að sýslumaður tilkynnir erfingjum um áritun erfðafjárskýrslu.  Ef erfingja greinir á við sýslumann um ákvörðun skattsins er að finna reglur um hvernig með skuli farið í lögum um erfðafjárskatt.

Að lokinni áritun sýslumanns skal hann senda skýrsluna til ríkisskattstjóra sem yfirfer hana og kannar hvort eignir séu réttilega taldar fram.  Skal ríkisskattstjóri hafa yfirfarið skýrsluna innan 40 daga frá því að hún barst honum. 

Þegar erfðafjárskattur er greiddur geta erfingjar fengið áritun sýslumanns á skjöl sem þarf til að skrá eignir á nöfn þeirra, t.d. ef þinglýsa þarf fasteign eða umskrá ökutæki í ökutækjaskrá.  Ekki er heimilt að umskrá slíkar eignir fyrr en að þessu loknu.

Þegar erfðafjárskattur er greiddur skal skv. 6. gr. laga nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs jafnframt greiða skiptagjald í ríkissjóð.  Skiptagjald greiðist þó ekki ef arfur rennur að öllu leyti til erfingja sem er undanþeginn skyldu til greiðslu erfðafjárskatts.  Sjá fjárhæð þess hér.

Til athugunar varðandi skattskyldu söluhagnaðar við sölu íbúðar-húsnæðis

Við andlát stofnast sérstök skattskylda dánarbús viðkomandi einstaklings. Dánarbú eru lögaðilar og bera sjálfstæða skattskyldu samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og fer álagning á þau eftir álagningarreglum sem gilda um lögaðila, þ.e. tekjuskattur með því álagningarhlutfalli sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 17. gr. nefndra laga.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 165/2010 gilda sömu ákvæði um söluhagnað af sölu íbúðarhúsnæðis sem verið hefur í eigu manns hvort sem það er dánarbú mannsins sem selur eða erfingjar.

Ákvæði um skattfrelsi söluhagnaðar íbúðarhúsnæðis sem fram koma í 1. mgr. 17. gr. áðurnefndra laga eiga nú við þegar selt er íbúðarhúsnæði sem er í eigu manna á söludegi jafnt og þegar um er að ræða sölu íbúðarhúsnæðis í eigu dánarbús. Kemur þá til skoðunar stærð húsnæðisins og eignarhaldstími arfláta og erfingja. Sé húsnæðið innan stærðarmarka (600 rúmmetrar í tilviki einstaklings og 1.200 rúmmetrar í tilviki hjóna/sambúðarfólks) og samanlagður eignarhaldstími arfláta og erfingja er yfir 2 ár er hagnaður af sölu þess skattfrjáls. Sjá frekari upplýsingar um skattskyldu dánarbúa hér á vef Skattsins.   

Uppfært 19.02.2021.