Einkaskipti dánarbúa

Um skipti á dánarbúum fer eftir ákvæðum laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl

Skilyrði einkaskipta

Ef allir erfingjar eru sammála er þeim heimilt að skipta dánarbúi einkaskiptum. Þá þarf að liggja ljóst fyrir hverjir eru erfingjar og þurfa þeir að vera sammála allir sem einn um hvernig eignum og eftir atvikum skuldum dánarbúsins verður skipt. Ef ekki næst samkomulag milli erfingja um að sækja um leyfi til einkaskipta þurfa að fara fram opinber skipti á dánarbúinu.

Réttaráhrif leyfis til einkaskipta

Eftir að sýslumaður hefur gefið út leyfi til einkaskipta bera erfingjar einn fyrir alla og allir fyrir einn ábyrgð á skuldum hins látna. Það er mikilvægt að erfingjar geri sér grein fyrir því, áður en þeir óska eftir leyfi til einkaskipta, að eftir að leyfi er veitt bera þeir alla ábyrgð á skuldum hins látna, jafnt þeim skuldum sem kunnugt er um og þeim sem ókunnugt er um.

Beiðni um leyfi til einkaskipta

Ef erfingjar óska eftir að skipta búi einkaskiptum fylla þeir út sérstakt umsóknareyðublað þar að lútandi og senda viðkomandi sýslumanni innan fjögurra mánaða frá andláti. Þegar umsókn hefur borist sýslumanni fer hann  yfir hana og veitir leyfi til einkaskipta ef hann telur skilyrði vera fyrir hendi. 

Frestur til að ljúka einkaskiptum

Um leið og sýslumaður veitir leyfi til einkaskipta setur hann erfingjum frest til þess að ljúka skiptum. Þessi frestur er oftast eitt ár frá andláti.

Ráðstöfun eigna bús

Þegar erfingjar hafa fengið leyfi til einkaskipta geta þeir ráðstafað eignum dánarbúsins. Erfingjar geta því selt eignir búsins, t.d. hús og bíl og tekið út af bankareikningum þess. Þeir verða að gera þetta í sameiningu og jafnframt vera sammála um það hvað hver þeirra eigi að fá í sinn hlut.

Við andlát stofnast sérstök skattskylda dánarbús viðkomandi einstaklings. Dánarbú eru lögaðilar og bera sjálfstæða skattskyldu samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og fer álagning á þau eftir álagningarreglum sem gilda um lögaðila, þ.e. tekjuskattur með því álagningarhlutfalli sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 17. gr. nefndra laga.

Vakin er athygli á því að frá gildistöku 3. gr. laga nr. 165/2010 gilda sömu ákvæði um söluhagnað af sölu íbúðarhúsnæðis sem verið hefur í eigu manns hvort sem það er dánarbú mannsins sem selur eða erfingjar.

Ákvæði um skattfrelsi söluhagnaðar íbúðarhúsnæðis sem fram koma í 1. mgr. 17. gr. áðurnefndra laga eiga nú við þegar selt er íbúðarhúsnæði sem er í eigu manna á söludegi jafnt og þegar um er að ræða sölu íbúðarhúsnæðis í eigu dánarbús. Kemur þá til skoðunar stærð húsnæðisins og eignarhaldstími arfláta og erfingja. Sé húsnæðið innan stærðarmarka (600 rúmmetrar í tilviki einstaklings og 1.200 rúmmetrar í tilviki hjóna/sambúðarfólks) og samanlagður eignarhaldstími arfláta og erfingja er yfir 2 ár er hagnaður af sölu þess skattfrjáls. Sjá frekari upplysingar um skattskyldu dánarbúa á vef Ríkisskattstjóra.

Lok einkaskipta

Einkaskiptum lýkur formlega með því að erfingjar afhenda sýslumanni einkaskiptagerð og erfðafjárskýrslu sem hann áritar um staðfestingu.

Einkaskiptagerð

Einkaskiptagerð er skriflegur samningur erfingja um frágang mála og skal hún vera undirrituð af þeim. Ef eignir eru óverulegar eða skiptin einföld getur sýslumaður ákveðið að ekki sé nauðsynlegt að gera einkaskiptagerð ef nægar upplýsingar koma fram í erfðafjárskýrslu.

Erfðafjárskýrsla

Erfingjum ber að greiða erfðafjárskatt af þeim fjármunum sem til þeirra renna og skulu þeir fylla út sérstakt eyðublað, erfðafjárskýrslu, í þessu skyni.  Erfðafjárskattur er nú 10%.  Enginn skattur greiðist þó af fyrstu 5.000.000 kr. af skattstofni.  Eftirlifandi maka ber ekki að greiða erfðafjárskatt.  Sama gildir um sambúðaraðila sem tekur arf eftir hinn látna skv. erfðaskrá.  Sjá nánar síðuna um erfðafjárskatt hér til hliðar.

Greiðsla erfðafjárskatts

Þegar erfðafjárskattur er greiddur geta erfingjar fengið áritun sýslumanns á skjöl sem þarf til að flytja eignir yfir á nöfn þeirra, t.d. ef þinglýsa þarf fasteign eða umskrá bifreið í ökutækjaskrá.  Athygli er vakin á því að ekki er heimilt að umskrá slíkar eignir fyrr en að fenginni áritun sýslumanns.

 Spurningar og svör

Verið er að skipta dánarbúi hjóna, eftir lát beggja, langlífari maki sat í óskiptu búi. Má draga frá á erfðafjárskýrslunni útfararkostnað vegna þess sem lést á undan?

Nei, það má aðeins tilgreina til frádráttar skuldbindingar á dánardegi, þannig að slíkur frádráttarliður á aðeins rétt á sér ef við andlát þess langlífara væri ógreidd krafa vegna útfarar þess sem lést á undan.Uppfært 20.01.2015.