Eignalaus dánarbú

Ef ekki finnast eignir eða verðmæti í dánarbúi eða ekki meira virði en sem nemur kostnaði við útför má ljúka skiptum án frekari aðgerða. Fer um það sem hér segir:

Ef sá sem tilkynnir andlát til sýslumanns lýsir því yfir að búið eigi ekki eignir eða fjármuni umfram kostnað við útför og sýslumaður hefur ekki ástæðu til að efast um þá yfirlýsingu getur hann lokið skiptum þá þegar með því að framselja þeim sem kostar útförina þær eignir sem liggja fyrir.

Sama er ef einhver sá sem telja má að hafi nægar upplýsingar um stöðu búsins gefur út slíka yfirlýsingu meðan sýslumaður fer með forræði búsins.

Þegar andvirði eigna er metið skal tekið tillit til veðkrafna og annarra kvaða sem hvíla á henni en aðeins er heimilt að ljúka skiptum með framsali eignar að sá sem tekur við henni ábyrgist þær skuldbindingar.

Ef fleiri en einn gefa sig fram við sýslumann áður en skiptum er lokið og lýsa yfir vilja sínum til að kosta útför þess látna gegn framsali eigna skal eftirlifandi maki eða sambýlismaður ganga fyrir öðrum, en því næst aðrir erfingjar. Fáist ekki niðurstaða þannig og samkomulag verður ekki um annað skal hlutkesti ráða.

Þótt skiptum hafi verið lokið með framsali eigna getur erfingi, sem rökstyður fyrir sýslumanni að eignir kunni að hafa verið vantaldar, krafist skrásetningar og eftir atvikum mats á eignum. Komi þannig í ljós að ekki hafi verið skilyrði til skiptaloka eða það verður uppvíst síðar með öðrum hætti skal sýslumaður taka skiptin upp á ný.

Ef hvorki tilkynnandi andláts né aðrir sem sýslumaður kanna að leita til geta upplýst um fjárhagsstöðu búsins og þau úrræði sem sýslumaður hefur til að kanna hag þess með því m.a. að afla upplýsinga hjá bönkum leiða ekki til að eignir finnist er honum heimilt að ljúka skiptum.

Skiptalok samkvæmt áðursögðu falla sjálfkrafa úr gildi ef dánarbúið er tekið síðar til opinberra skipta. Uppf. 10.04.2019.