Ákvarðanir um kvaðaarf

Staðfesting eða niðurfelling á kvaðabindingu arfs

Samkvæmt 36. gr erfðalaga nr. 8/1962, er arfláta ekki heimilt að leggja fyrirmæli eða kvaðir í erfðaskrá um að skylduerfingi hans skuli fara með arfshluta sinn á ákveðinn hátt. Í 50. gr. laganna er þó  veitt sérstök heimild til þess ef verulegar líkur teljast á að arfþegi fari ráðleysislega með hlut sinn.  Er arfláta þá heimilt að setja ákvæði í erfðaskrá um það, hversu fari um skylduarf til einstakra niðja eða maka, svo sem að erfðahlutur lúti reglum um fé ófjárráða, að erfingja sé greidd tiltekin fjárhæð af höfuðstól með vissu millibili eða að óheimilt sé að ráðstafa eign eða leita fullnustu í henni nema með tilteknum hætti. Slík ákvæði í erfðaskrá verða því aðeins gild, að Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra samþykki þau. Það er skrifstofa embættisins á Siglufirði sem fer með ákvörðun um kvaðaarf.

Sýslumanni er heimilt að fella niður kvaðir á arfi að nokkru leyti eða öllu, þegar erfingi hefur náð 21 árs aldri og færir sönnur á, að þær ástæður, sem lágu til grundvallar kvöðum, eru ekki framar fyrir hendi.  Sýslumaður  getur einnig leyft, að erfingja séu greiddar hærri fjárhæðir af arfi en erfðaskrá ákveður, ef brýn nauðsyn erfingja eða fjölskyldu hans krefur.

Binda má arf, sem ekki er skylduarfur, kvöðum með erfðaskrá og hægt er að sækja á sama stað um niðurfellingu á þeim kvöðum, með sama hætti og sótt er um niðurfellingu á kvöð á skylduarfi.

Ákvörðun sýslumanns um kvaðabindingu arfs og niðurfellingu á kvöð á arfi er samkvæmt erfðalögum kæranleg til innanríkisráðuneytisins innan þriggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar sýslumanns.

Samkvæmt reglugerð nr. 108/2014 um ákvarðanir varðandi kvaðabindingu arfs og niðurfellingu
kvaðar sér Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra um ákvarðanir um
kvaðaarf.

Erindi skal senda til: Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra, Gránugötu 4-6, 580 Siglufirði.