Umhverfisvænir sýslumenn

Starfsfólk Sýslumannsins á Vesturlandi hefur hlotið sitt fyrsta græna skref.

Hvað eru Græn skref?
Verkefnið Græn skref er leið fyrir stofnanir og fyrirtæki að gera rekstur umhverfisvænni og að minnka umhverfisáhrif opinberra innkaupa. Þau eru innleidd í fimm skrefum og byggja á fjölmörgum aðgerðum er snerta á rekstrarþáttum sem hafa áhrif á umhverfið. Í fimmta og síðasta skrefinu er svo lagður grunnur að umhverfisstjórnun stofnunarinnar. Öll embætti Sýslumanns taka þátt í Grænum skrefum. Umhverfisstofnun sér um úttektir og utanumhald verkefnisins.

Gátlisti fyrsta skrefsins skiptist í 34 aðgerðir sem allar bæta umhverfið á einn eða annan hátt. Þar koma inn í betrumbættar ákvarðanatökur er snúa að miðlun og stjórnun, innkaupum, samgöngum, rafmagns- og húshitun, flokkun og minni sóun, viðburðum og fundum og loks að eldhúsaðstöðu og kaffistofum. Til að vinna sér inn fyrsta græna skrefið þarf vinnustaðurinn að uppfylla lágmark 90% af þessum 34 aðgerðum sem eru á listanum.

Graen-mynd-BorgarnesGraen-mynd-Budardalur

Fyrsta embætti sýslumanns til að hljóta Grænt skref
Hjá sýslumanninum á Vesturlandi starfa 18 starfsmenn á fimm starfstöðvum. Það eru skrifstofur á Akranesi, Borgarnesi og Stykkishólmi og svo eru tvö útibú í Búðardal og Snæfellsbæ.

Bjarney Inga Sigurðardóttir, gjaldkeri og skrifstofumaður í útibúinu á Stykkishólmi, greindi frá þessum merka áfanga embættisins í stuttu viðtali.

Bjarney

Hvað tók það ykkur langan tíma að uppfylla fyrsta skrefið?
Þetta hafði verið á sjóndeildarhring sviðstjóra Sýslumannsins á Vesturlandi, Berglindar Lilju, lengi vel. Á Vesturlandi hafa mörg bæjarfélög verið brautryðjendur í vistvænni umhverfisháttum og þótti þetta að mörgu leyti vera rökrétt næsta skref. Við byrjuðum að skoða hvað þyrfti að uppfylla og skráðum okkur til leiks í september á seinasta ári. Starfstöðvarnar eru í mismunandi bæjarfélögum og því var það fyrsta að koma okkur öllum á sama stað hvað varðar endurvinnslu og flokkun. Starfið hefst í september og 9.mars fáum við fyrsta skrefið. Hinsvegar höfum við litið á þetta sem heild og erum að vinna í mörgum skrefum samstundis og við erum mjög nálægt því að fá annað skrefið.

Þurfti að tileinka sér margar breytingar og hvernig gekk það fyrir sig?
Auðvitað var þónokkuð um breytingar en þetta krefst bara skipulags og samvinnu. Skref eins og að safna saman skrifstofuvörum og endurnýta, prenta svarthvítt, flokka rusl og slökkva á skjánum þegar tölvan er yfirgefin voru oft hluti af daglegum venjum fólks en það þurfti bara að benda öðrum á það og þá þótti þeim þetta sjálfsagt. Stærri breytingar eins og að skoða alltaf vottanir og umhverfismerkingar þegar verið er að versla inn, sama hvort það sé eldhúspappír, hreinsivörur eða tölvur hafa verið erfiðastar því þetta krefst smá rannsóknarvinnu og að þekkja þau merki sem eru vottuð. Þetta er því líklegast eilífðarstarf.

Voru einhverjar breytingar erfiðari að innleiða en aðrar?
Það er í mörg horn að líta og vissulega voru einhverjar breytingar erfiðari en aðrar. Sýslumenn voru nýlega búnir að innleiða Teams þegar við byrjuðum í Grænu skrefunum og til að spara okkur sporin höfum við reynt að vinna saman svo að verið sé ekki að finna upp hjólið á hverjum stað. Það þurfti að búa til samgöngusamninga og byrja á umhverfis- og loftlagsstefnu en sem betur fer höfum við í sameiningu reynt að létta okkur verkið. Safna þarf gríðarlegum upplýsingum fyrir græna bókhaldið og er það tímafrekt en af raunverulegum breytingum held ég að krafan um vistvænt/siðferðisvottað kaffi hafi vaxið okkur mest í augum. Það hafa allir mismunandi smekk og auðvitað erum við öll vanaföst svo þetta krafðist mikillar rannsóknarvinnu og undirbúnings og er ekki enn klárað verk!

Lagðist þetta átak vel í alla starfsmennina?
Viðbrögðin hafa yfir allt verið jákvæð, flestir sinna þessu heima hjá sér og í aðalatriðum var starfið löngu byrjað á skrifstofunni.

Telurðu mikilvægt fyrir stofnun eins og Sýslumann að taka þátt í svona verkefni og hvers vegna?
Auðvitað tel ég það mikilvægt, ekki aðeins vegna skuldbindingar íslenskra stjórnvalda, heldur líka sem fyrirmyndir starfsmanna og almennings. Þetta krefst smá undirbúningsvinnu en eins og við höfum öll fengið að kynnast hefur þetta smitast mikið út frá sér. Um leið og við förum að skoða þetta gagnrýnið í vinnunni, fer maður að hugsa um þetta heima og þannig held ég að svona verkefni geti haft óendanleg áhrif. Þegar við vorum að leita að leiðum til að spara rafmagnsnotkunina í vinnunni, smitaðist það heim. Þegar við fórum að ræða um umhverfisvottunina á vörukaupum fór fólk að skoða þetta í innkaupum fyrir heimilin einnig. Ég held líka að þetta sýni skuldbindingu út í samfélagið þegar stofnanir taki þátt í svona verkefnum, við viljum koma fram við umhverfi okkar af virðingu.

Eru menn nokkuð á því að hætta núna?
Það er ekki hægt að snúa til baka. Um leið og þú venst því að flokka er furðulegt að sleppa því, um leið og þú ert farin að hugsa svona um umhverfi þitt verður óeðlilegt að hegða sér öðruvísi annars staðar.