Um Stundar sakir

Um Stundar sakir

Undanfarnar vikur hefur fjölmiðillinn Stundin fjallað á vef og prenti á óvæginn og ómálefnalegan hátt um tiltekið umgengnismál með þátttöku annars málsaðila þess.

Kveðst Stundin vera að fjalla um „...réttarframkvæmd Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í umgengnis- og dagsektarmálum.“  

Eins og gefur að skilja getur sýslumaður ekki fjallað opinberlega um tiltekin mál, sem eru eða hafa verið til umfjöllunar á embættinu.

Á árinu 2017 voru samtals 585 umgengnis- og dagsektamál til meðferðar hjá embættinu. Flestum málum lauk með samningi milli aðila, m.a. að undangenginni sáttameðferð hjá sérfræðingum embættisins í málefnum barna. Einungis þurfti að úrskurða í 56 ágreiningsmálum og þar af voru aðeins 15 úrskurðir kærðir til dómsmálaráðuneytisins.

Samkvæmt venju skrifar einn löglærður fulltrúi undir hvern úrskurð. Málsmeðferð og úrskurðir eru hins vegar afrakstur samvinnu starfsmanna.

Sýslumaður er hreykinn af sínu starfsfólki og ber fullt traust til þess. Það býr yfir mikilli þekkingu á þessum erfiða málaflokki og vandar málsmeðferð í samræmi við lög og reglur sem um málaflokkinn gilda og leggur sig allt fram við að vanda málsmeðferð.

Það er umhugsunarvert að fjölmiðill skuli fjalla á jafn ógætinn hátt um persónuleg málefni einstaklinga og Stundin gerir í þessu máli m.a. með tilliti til persónuverndarlöggjafarinnar og 3. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands.

Kópavogi 15. maí 2018,

Þórólfur Halldórsson, sýslumaður