Ráðist í rafræna skráningu eldri fjölskyldumála á landsvísu

Samgöngu og sveitarstjórnarráðherra hefur staðfest tillögur valnefndar um verkefnastyrki vegna fjarvinnslustöðva, sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar.

Á meðal þriggja styrkja sem veittir voru hlaut sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra styrk til verkefnisins „Rafræn skönnun fjölskyldumála á landsvísu“. Markmið þess er að stuðla að heildstæðri mála- og skjalaskrá í fjölskyldumálum, svo tryggja megi rafræna vistun og aðgengi að mikilvægum grundvallarskjölum til framtíðar.

Verkefnið verður staðsett á skrifstofu sveitarfélagsins Langanesbyggðar á Þórshöfn í samræmi við samstarfssamning sýslumannsembættisins og sveitarfélagsins. Samhliða mun starfsmaður sýslumanns sinna almennum verkefnum embættisins á svæðinu, s.s. móttöku umsókna, tilkynninga og skjala af ýmsu tagi og fleira.

Í samræmi við tilgang verkefnis er stuðlað að atvinnutækifærum á landsbyggðinni. Samhliða er vonast til þess að þjónustustig sýslumannsembættisins í Langanesbyggð og nærliggjandi sveitarfélögum taki stakkaskiptum. Um tilraunaverkefni er að ræða, en styrkveitingin nær til ársins 2020.

Mynd-Undirritun-samstarfssamnings-12.2.20-002-Svavar Pálsson sýslumaður og Jónas Egilsson starfandi sveitarstjóri undirrita samstarfssamning 12. febrúar 2020