Ný lög um stimpilgjald

9.1.2014

1. janúar 2014 tóku gildi ný heildarlög um stimpilgjald, lög nr. 138/2013.  Féllu þá jafnframt úr gildi eldri lög um stimpilgjald, lög nr. 36/1978.  Með nýju lögunum færist öll innheimta gjaldanna til sýslumanna og reglur um álagningu gjaldsins einfaldast að mun.

Eftir lagabreytinguna verður einungis skylt að greiða stimpilgjöld af skjölum er varða eignaryfirfærslu á fasteignum hér á landi og á skipum yfir 5 brúttótonnum sem skrásett eru hér á landi, svo sem afsölum, kaupsamningum eða gjafagerningum.  Öll önnur skjöl sem til þessa hafa verið stimpilskyld verða hins vegar stimpilfrjáls.  Má þar nefna skuldabréf, tryggingarbréf, aðfarargerðir, leigusamninga o.fl. 

Skjöl sem fela í sér  eigendaskipti vegna arfs og búskipta hjóna verða þó áfram undanþegin stimpilskyldu enda sé ekki samhliða um sölu eða söluafsal að ræða.

Gjaldskylda stofnast þann dag sem allir hlutaðeigandi hafa undirritað skjalið og er gjalddagi tveimur mánuðum síðar.

Með nýju lögunum hækkar gjaldhlutfallið vegna eignaryfirfærslu á fasteignum og skipum yfir 5 brúttótonnum, sem miðast við kaup eða söluverð eignar úr 0,4% í 0,8% hjá einstaklingum og úr 0,4% í 1,6% hjá lögaðilum.  Reikna ber gjaldið af fasteignamati fasteignar eins og það er skráð í fasteignaskrá en af kaupverði skips, sem þó má aldrei vera lægra en ávílandi veðskuldir.

Þó er heimilt að veita einstaklingum helmingsafslátt af stimpilgjaldi þegar þeir kaupa sér í fyrsta sinn íbúðarhúsnæði til eigin nota að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Hætt verður að stimpla eða árita skjölin sjálf  um staðfestingu á greiðslu gjaldsins hjá sýslumönnum aðeins verður gefin út kvittun fyrir greiðslu.

Frekari upplýsingar um gjaldið má nálgast á vefnum hér þar sem fjallað er um gjaldtöku.

Innfært 09.01.2013