Ný lög um frestun nauðungarsölu til meðferðar á Alþingi

30.12.2013

Skilyrði frestunar

Skilyrði frestunar er að fasteignin sé ætluð til búsetu skv. ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda og að gerðarþoli, einn eða fleiri, haldi þar heimili og sé þar með skráð lögheimili.

Annað skilyrði er að skuldari leggi fram staðfestingu á að hann hafi:

a) sótt um leiðréttingu fasteignaveðlána samkvæmt lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána en ríkisskattstjóri hafi ekki endanlega ákvarðað leiðréttingu eða

b) ákvörðun ríkisskattstjóra hafi verið kærð til úrskurðarnefndar og sé þar til meðferðar.

Til staðfestingar á stöðu umsóknar geta umsækjendur um frest prentað út af þjónustusíðu sinni, á upplýsingasíðu um þessar niðurfellingar á slóðinni www.leidretting.is , upplýsingar um stöðu umsóknar sinnar þ.e. ef viðkomandi hefur enn ekki fengið niðurstöðu ríkisskattstjóra, getur ekki samþykkt niðurstöðu hans eða hefur kært niðurstöðu sína til úrskurðarnefndar.  Skal útprentunin fylgja umsókn viðkomandi til sýslumanns. Hafi sýslumaður ástæðu til að rengja þau gögn sem umsækjandi leggur fram getur umsækjandi fengið útgefna staðfestingu hjá ríkisskattstjóra um stöðu umsóknar.

Úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, sbr. 14. gr. laga nr. 35/2014
um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána hefur verið skipuð og hefur aðsetur í húsnæði yfirskattanefndar í Borgartúni 21, Reykjavík.  Frekari upplýsingar um hana má nálgast á vef leiðréttingarinnar, www.leidretting.is

Önnur atriði

Frestun getur falið í sér eitt af þremur eftirtöldum atriðum:

  • Í fyrsta lagi getur sýslumaður frestað töku ákvörðunar um hvenær halda skuli framhald uppboðs (lokasölu) eða ráðstafa eign á almennum markaði. 
  • Í öðru lagi getur sýslumaður frestað frekari aðgerðum hafi þegar verið ákveðin ráðstöfun fasteignar við framhald uppboðs eða á almennum markaði en uppboði hefur ekki verið lokið eða boð á almennum markaði samþykkt.
  • Í þriðja lagi getur sýslumaður frestað frekari vinnslu máls þegar uppboði er lokið en sá tími sem hæstbjóðandi er bundinn við boð sitt er ekki liðinn.

Í tveimur fyrri tilvikunum er nægjanlegt að fyrir liggi beiðni frá gerðarþola. Í þriðja tilvikinu þarf beiðni gerðarþola og samþykki allra gerðarbeiðenda og hæstbjóðanda að liggja fyrir. 


Ekki er unnt að fresta fyrri stigum nauðungarsölu nema að beiðni gerðarbeiðanda.

Ekki skiptir máli þótt nauðungarsalan stafi af annarri skuld en þeirri sem sótt er um leiðréttingu á, eftir sem áður má veita frest að örðum skilyrðum uppfylltum.

Ekki er gert að skilyrði að eignin hafi verið í nauðungarsöluferli fyrir 1. september 2014 heldur geta einnig þeir sem sótt hafa um leiðréttingu fasteignaveðlána fyrir 1. september 2014 án þess að eign þeirra hafi á þeim tímapunkti verið í nauðungarsöluferli sótt um frestun nauðungarsölu.

Ákvæði laganna um frestun nauðungarsölu og réttarárhif þeirra falla úr gildi 1. október 2015.

Uppfært 02.03.2015.