Góð reynsla af sáttameðferð og sérfræðiráðgjöf sýslumanna skv. nýjum ákvæðum í barnalögum
Foreldrar hafa undanfarin ár kallað eftir aukinni fræðslu og ráðgjöf í tengslum við skilnaðar- og sambúðarslitamál. Með nýjum úrræðum í barnalögum um ráðgjöf og sáttameðferð er komið til móts við þessar óskir um þjónustu og aðstoð við foreldra sem slíta samvistir eða deila um málefni barna sinna er aukin. Úrræðin eru ólík en bæði stefna að því að gera foreldrum betur kleift að koma til móts við þarfir barna sinna og hjálpa foreldrum að setja hagsmuni þeirra og velferð í öndvegi þegar ágreiningur kemur upp.
Í barnalögum er nú kveðið á um að sýslumaður geti boðið foreldrum ráðgjöf sérfræðings í tilteknum málum sem koma til meðferðar hjá sýslumanni og að sýslumaður skuli bjóða sáttameðferð í tilteknum málum.
Hjá sýslumanninum í Reykjavík hófst undirbúningur að innleiðingu verkefnisins snemma á árinu og í sumar var ráðið í störf sálfræðings og félagsráðgjafa til að sinna þjónustunni ásamt löglærðum fulltrúum embættisins en mikil eftirspurn er eftir henni. Frá því í byrjun júlí hafa fjölmörg mál verið tekin fyrir og afgreidd og hafa starfsmenn því öðlast talsverða reynslu á stuttum tíma. Það er mat embættisins að vel hafi tekist til og árangur af starfseminni sé langt umfram væntingar.
Hér að neðan eru upplýsingar um fjölda og afgreiðslur þeirra mála sem komið hafa til meðferðar hjá sérfræðingum í málefnum barna hjá sýslumanninum í Reykjavík á tímabilinu júlí – 1. desember 2013.
Fjöldi | Lokin | Ólokin | Fjöldi | |
Júlí til desember 2013 | mála | mál | mál | viðtala |
Heildarfjöldi | 161 | 85 | 76 | 228 |
Sáttameðferð og sérfræðiráðgjöf | 151 | 81 | 70 | |
Önnur mál | 10 | 4 | 6 |
Innf. 17.12.2013.