• Stjórn Sýslumannafélags Íslands
    Stjórn Sýslumannafélags Íslands eftir aðalfund 21. September 2013, f.v. Svavar Pálsson, sýslumaður á Húsavík, Guðgeir Eyjólfsson, sýslumaður í Kópavogi og Hafnarfirði, Þórólfur Halldórsson, sýslumaður í Keflavík og formaður sýslumannafélagsins, Jónas Guðmundsson, sýslumaður í Bolungarvík og Anna Birna Þráinsdóttir , sýslumaður í Vík.

Nýr einkennisfatnaður sýslumanna

8.10.2013


Ný reglugerð um einkennisfatnað, skilríki og merki sýslumanna og löglærðra fulltrúa þeirra, reglugerð nr. 882/2013 hefur tekið gildi.  Helstu nýmæli reglugerðarinnar fela í sér að  auk hefðbundins einkennisbúnings, hátíðarbúnings og skikkju bætist við einkennisfatnaðinn svonefnd stóla. Er henni lýst í reglugerðinni (8. gr.) sem hér segir: „Stóla skal vera úr svörtu ullarefni, um 140 sm að lengd og 14 sm breið. Innra byrði skal vera úr stömu, svörtu efni. Hvor endi skal vera með 130 gráðu útstætt horn fyrir miðju. Tveir samhliða gylltir borðar, 1,1 sm á breidd með 1,5 sm bili skulu þvera báða enda stólunnar. Neðri brún neðri borðans skal vera 5 sm frá miðhorni hennar. Efri borðarnir skulu vera tvískiptir og hver hluti um 4 sm að lengd frá ytri brún. Milli þeirra fyrir miðju skal vera ísaumað skjaldarmerki 3,5 sm á hæð og 3,5 sm á breidd úr gylltu efni. Um 33,5 sm frá miðhorni skal vera ísaumað einkennismerki sýslumanna úr gylltu efni um 3,5 sm á breidd og 4 sm á hæð.

Stóla löglærðs fulltrúa sýslumanna skal vera án neðri borða.

Um notkun stólu segir í 3. mgr. 11. gr.  að heimilt sé að nota hana í stað einkennisfatnaðar skv. 6.  og 7. gr. reglugerðarinnar við embættisathafnir ef aðstæður mæla með því að mati sýslumanns.

Orðið stóla er að sögn fróðra manna dregin af gríska orðinu epistola sem þýðir sá sem er sendur og hafa stólur löngum verið notaðar af kirkjunnar þjónum.

Stóla fyrir sýslumenn ætti að geta verið til nokkurs hagræðis og þæginda fyrir sýslumenn sem hana nota og fulltrúa þeirra.  Má þar nefna að hana má setja upp eða taka niður á þeim stað sem embættisverk skal unnið utan eða innan skrifstofu, sama stærð er ætluð fyrir alla og getur sama stóla því nýst mörgum, jafnt körlum sem konum, hún er lítillar fyrirferðar og loks er mun kostnaðarminna að sauma stólur en annan klæðnað sýslumanna.  

Auk ákvæðis um stólu eru í reglugerðinni sérstakar reglur um skilríki sýslumanna og löglærðra fulltrúa þeirra sem þeir skulu bera við störf sín og er nú unnið að verklagsreglum um útgáfu þeirra, gerð og útlit.