Álagningar vanrækslugjalds fleiri en áður

4.10.2013

Nú um mánaðamótin september / október 2013  lagðist vanrækslugjald skv. umferðarlögum nr. 50/1987 á eigendur rúmlega 9.000 ökutækja.  Hafa álagningar í einum mánuði aldrei verið fleiri frá því að þær hófust í apríl á árinu 2009. Álagningin skiptist þannig að 8.337 álagningar eru vegna þess að ökutæki voru ekki færð til lögmæltrar aðalskoðunar og 745 ökutæki ekki til endurskoðunar. 

Ein skýring á hinum mikla fjölda álagninga um þessi mánaðamót er án efa að auk þess sem gjaldið leggst á eigendur óskoðaðra ökutækja sem færa átti til skoðunar í júlí þar sem endastafur skráningarmerkis var 7, leggst það einnig á alla eigendur óskoðaðra ferðavagna (hjólhýsa, tjaldvagna o.s.frv.), vélhjóla, léttra bifhjóla og fornbíla, sem samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 8/2009 um skoðun ökutækja áttu að færa þessi tæki sín til skoðunar í júlí og í síðasta lagi fyrir 1. október 2013 óháð endastaf skráningarmerkis. Sjá nánar á vefnum www.vanrækslugjald.is. Þá ber að hafa í huga að ferðavagnar urðu almennt ekki skoðunarskyldir fyrr en við gildistöku reglugerðar um skoðun ökutækja í byrjun árs 2009.  þurfti því að færa alla ferðavagna sem voru eldri en frá árinu 2006 í skoðun það ár og síðan annað hvert ár eftir það eða öll ár sem enda á oddatölu. Er þetta nokkur fjöldi ferðavagna eða á að giska um 3.000 og einhver fjöldi þeirra eflaust ekki færður til skoðunar á réttum tíma.

Ef allir sem sættu álagningu nú um mánaðamótin brygðust við og færðu ökutæki sín til skoðunar í október og fengju þannig 50% afslátt frá álögðu gjaldi sem er 15.000 kr. rynnu engu að síður um 68 m.kr. í ríkissjóð. Ósagt skal látið hvort skýring á þessum aukna fjölda álagninga frá því sem verið hefur í október síðustu ár er aukinn trassaskapur eða verri fjárhagur eigenda ökutækja en vissulega væri ástæða til að kanna það nánar.

Áréttað skal að tilgangurinn með reglum um álagningu vanrækslugjalds ef ökutæki er ekki fært til lögmæltrar skoðunar er ekki að afla fjár heldur er markmiðið skv. 1. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja að stuðla að auknu umferðaröryggi með því að tryggja að ökutæki sé í lögmæltu ástandi til þess að hætta af notkun þeirra verði sem minnst.

Súlurit. Fjöldi álagninga vegna vanrækslu á aðalskoðun ökutækja (rautt) og endurskoðun ökutækja (grænt) frá mars 2010 til október 2013