Sýslumenn sækja námskeið í sáttamiðlun

23.5.2013

Með nýjum ákvæðum í barnalögum nr. 76/2003 sem tóku gildi um síðustu áramót með lögum nr. 61/2012 var m.a. gerð sú breyting að áður en krafist er úrskurðar eða mál höfðað um forsjá barns, umgengni eða dagsektir er foreldrum skylt að leita sátta um í ágreiningi sínum.

Skal sýslumaður bjóða aðilum forsjár-, umgengnis- og dagsektarmála sáttameðferð en aðilar geta einnig leitað til annarra sem hafa viðurkennda sérfræðiþekkingu í sáttameðferð og málefnum barna. Markmið með sáttameðferð er að aðstoða foreldra við að semja sín á milli um þá lausn máls sem er barni fyrir bestu.  

Dagana 13. til 16. maí sl. var haldið námskeið í sáttamiðlun fyrir sýslumenn og þá fulltrúa þeirra sem munu starfa við sáttamiðlun. Námskeiðið var haldið á vegum félagsins Sáttar og fjölluðu innlendir og erlendir sérfræðingar um þetta úrræði og réttar aðferðir við að ná sem mestum árangri við beitingu þess. Námskeiðið stóð í alls fjóra daga og sóttu það rúmlega 20 manns.

Með sáttamiðlun eins og hér um ræðir er vonast til að fækka megi deilumálum fyrir sýslumönnum og dómstólum, með öllu sem því fylgir og að foreldrum takist í sem flestum tilvikum að finna sameiginlega lausn á ágreiningi sínum sem best hentar hag og þörfum barna. Er það vona allra að sem best megi takst til með þetta úrræði en um nýmæli er að ræða að foreldrum sé skylt að reyna þessa leið til lausnar ágreiningi áður en lengra er haldið.

Námskeiðið var haldið í Kríunesi í Kópavogi og er myndin tekin af þátttakendum og fræðurum  þeirra í góða veðrinu þar fyrir utan með Elliðavatn og Bláfjöll í bakgrunni.Hópmynd af þátttakendum og fræðurum