Reglur settar um ráðgjöf og sáttameðferð skv. barnalögum 

20.2.2013

Innanríkisráðherra hefur sett reglur um ráðgjöf og sáttameðferð samkvæmt 33. gr. og 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003, með síðari breytingum. Með reglum þessum, sem ætlað er að gilda til bráðabirgða, er lagður grundvöllur undir störf sáttamanna í samræmi við breytingar á barnalögum sem öðluðust gildi 1. janúar sl.

Samkvæmt 33. gr. a barnalaga er foreldrum skylt leita sátta áður en krafist er úrskurðar eða höfðað mál um forsjá, lögheimili, umgengni, dagsektir eða aðför. Sýslumaður býður foreldrum sáttameðferð en þeir geta einnig leitað til annarra sem hafa sérfræðiþekkingu í sáttameðferð og málefnum barna. Í reglunum er meðal annars kveðið á um hverjir geti veitt sáttameðferð, sbr. 11. gr. þeirra.

Markmiðið með sáttameðferð er að hjálpa foreldrum að komast að samkomulagi um þá lausn ágreinings sem barni er fyrir bestu. Foreldrum er skylt að mæta á sáttafundi sem sáttamaður boðar til og þegar sáttameðferð fer fram á vegum sýslumanns skal að lágmarki bjóða einn sáttafund en þeir geta orðið allt að fjórir. Ef sérstaklega stendur á má fjölga þeim um allt að þrjá. Ef sættir takast ekki gefur sáttamaður út svokallað sáttavottorð sem gildir í 6 mánuði.

Orðrétt heimild fréttatexta:  Tilkynning á vef innanríkisráðuneytisins, www.irr.is