Misskilningur Hagsmunasamtaka heimilanna leiðréttur

22.2.2012

  

Hagsmunasamtök heimilanna [HH] sendu fjölmiðlum í gær harðorða gagnrýni á störf sýslumanna, sem fjölmiðlar birtu athugasemdalaust. Gagnrýnin byggir því miður á misskilningi eða þekkingarskorti á störfum sýslumanna og þeim lagagrundvelli sem þau byggja á.

Undir fyrirsögninni HH segir sýslumenn standa í ólöglegum aðgerðum á vísi.is er haft eftir HH að samtökin telji „í ljósi nýgengins Hæstaréttardóms um ólögmæti vaxtaútreikninga gengistryggðra lána, að sýslumenn sem framkvæmt hafa fjárnám, nauðungarsölur og gjaldþrotaúrskurði á grundvelli slíkra ólögmætra útreikninga, hafi tekið sér dómsvald á meðan réttaróvissa ríkti. Þar með hafi þeir brotið stjórnsýslulög og jafnvel stjórnarskrá.“

Hér er þess fyrst að geta að héraðsdómstólar kveða upp gjaldþrotaúrskurði, en ekki sýslumenn. Um nauðungarsölur fer samkvæmt lögum um nauðungarsölu nr. 90/1991 og um fjárnám samkvæmt lögum um aðför nr. 90/1989.

Aðfararheimildir eru ítarlega raktar í 1. gr. laga 90/1989, en eru oftast byggðar á dómum eða úrskurðum dómstóla, stefnum árituðum af dómara eða kröfum um skatta og önnur opinber gjöld til ríkis og sveitarfélaga.

Nauðungarsöluheimildir eru ítarlega raktar í 6. gr. laga  90/1991, en eru oftast byggðar á þinglýstum lánssamningum og fjárnámum eða lögveðsréttindum húsfélaga, sveitarfélaga eða tryggingafélaga.

Hvorki fjárnám né nauðungarsölur fara fram á grundvelli vaxtaútreikninga. Í nauðungarsölumálum koma hins vegar vaxtaútreikningar og margt annað sem lýtur að formi og efni til skoðunar við athugun sýslumanns á nauðungarsölubeiðni samkvæmt 13. gr. laga  90/1991.

Ef nauðungarsölubeiðnir á fasteign stafa t.d. frá sveitarfélagi vegna vangoldinna fasteignagjalda eða tryggingafélagi vegna vangoldinna lögbundinna brunatrygginga, og sveitarfélagið og tryggingafélagið eru gerðarbeiðendur sem algengt er, en banki sem er kröfuhafi á gengistryggðu láni á eigninni er ekki gerðarbeiðandi, hefur nýgenginn dómur Hæstaréttar í málinu nr. 600/2011 ekki nokkur áhrif á framgang nauðungarsölumálsins. Ef eignin verður seld nauðungarsölu kemur kröfulýsing bankans hins vegar til skoðunar sýslumanns við gerð frumvarps að úthlutun söluverðs eignarinnar, svo fremi að upp í hana greiðist.

Ástæða er til að árétta að hver sá sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta við nauðungarsölu getur leitað úrlaunsar héraðsdómara vegna ágreinings um hvort nauðungarsala fari fram skv. XIII. kafla  laga  90/1991 og um gildi nauðungarsölunnar samkvæmt XIV. kafla laganna, en gæta verður þess að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem þar er að finna. En skv. 2. mgr. 22. gr laganna stöðva mótmæli af hendi gerðarþola eða þriðja manns að jafnaði ekki nauðungarsölu nema þau varði atriði sem sýslumanni ber að gæta af sjálfsdáðum eða sýslumaður telur þau annars valda því að óvíst sé að gerðarbeiðandi eigi rétt á að nauðungarsala fari fram.

Þá skal áréttað að vanskil gerðarþola á lögvarinni kröfu gerðarbeiðanda liggja yfirleitt til grundvallar nauðungarsölu og að lögvarin réttindi gerðarbeiðanda að fá kröfu sína greidda eru fullkomlega jafn mikilvæg lögvörðum réttindum gerðarþola, og varin af 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Það væri til gagns fyrir talsmenn HH að kynna sér gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hvar segir m.a. í 1. mgr. 2. gr. að lög þessi gildi ekki um aðfarargerðir og nauðungarsölur.

Fullyrðingar HH um að sýslumenn hafi í störfum sínum við nauðungarsölur og fjárnám brotið stjórnsýslulög jafnvel stjórnarskrá eru auðvitað mjög alvarlegar. Samtök sem hafa jafn mikilvægu hlutverki að gegna og HH þurfa að beita traustum og yfirveguðum rökstuðningi í sínum málflutningi. Að ásaka heila stétt embættismanna um lögbrot með upphrópunum og órökstuddum fullyrðingum er ekki málstað samtakanna til framdráttar.

                                           

 f.h. stjórnar Sýslumannafélags Íslands

22. febrúar 2012

Þórólfur Halldórsson formaður