Innheimta vanrækslugjalda árið 2011

24.1.2012

 

Innheimta vanrækslugjalda árið 2011

Á árinu 2011 greiddu eigendur eða umráðamenn ökutækja, sem ekki höfðu verð færð til lögmæltrar skoðunar innan tilskilins tíma og  skráð eru hérlendis, um 360 milljón krónur í vanrækslugjöld.   

Fjárhæð gjalds sem lagt er á þá sem ekki færa ökutæki til skoðunar innan frests er 15.000 kr.  Ef brugðist er við innan mánaðar frá álagningu og ökutæki fært til skoðunar eða það skráð úr umferð lækkar gjaldið í 7.500 kr.  Má því gera ráð fyrir að á bilinu 25.000 til 30.000 aðilar standi á bak við þessar greiðslur.

Fjöldi þeirra sem sættu álagningu vanrækslugjalds á árinu 2011 var um 37.500, en enn er nokkur fjöldi krafna sem stofnaðist það ár ógreiddur.  Óinnheimt vanrækslugjald frá upphafi, en álagningin gjaldsins hófst  í apríl 2009, var um síðust áramót um 250 milljónir króna. Ýmsar ástæðu kunna að liggja að baki því að ekki er greitt, en þær líklega helstar að þau ökutæki sem gjaldið er lagt á eru oft ekki til þótt þau séu skráð í ökutækjaskrá og hafa jafnvel sætt álagningu þrjú ár í röð.  Oft er um gömul og sennilega ónýt ökutæki að ræða gjarnan í eigu einstaklinga sem skráðir eru í útlöndum og því óhægt um vik að sannreyna ástand ökutækisins og koma því af skrá.

Um vanrækslugjald er fjallað í umferðarlögum nr. 50/1987 með síðari breytingum og reglugerð nr. 8/2009 um skoðun ökutækja.  Það leggst á öll ökutæki sem færa á til lögmæltrar skoðunar að liðnum tveimur mánuðum frá því að skoðun átti að fara fram ef hún er vanrækt, en meginreglan er að skoðunarmánuður ökutækis miðist við endastaf skráningarmerkis. 

Nánar má fræðast um álagningu og innheimtu vanrækslugjalds hér á vef sýslumanna á slóðinni http://www.vanrækslugjald.is/.