Ný handbók um framkvæmd laga nr. 36/1978 um stimpilgjald

17.1.2012

Nú í byrjun janúar 2012 kom út á rafrænu formi á vegum fjármálaráðuneytisins ritið „Verklagsreglur við innheimtu stimpilgjalda".  Um er að ræða handbók um framkvæmd laga um stimpilgjald, sem ætlað er að styðja samræmda álagningu og innheimtu stimpilgjalda hjá sýslumönnum og öðrum þeim sem annast innheimtu gjaldsins.

Í handbókinni er farið ítarlega yfir öll ákvæði núgildandi laga um stimpilgjald, sem eru nr. 36/1978, þau útskýrð nánar og í ákveðnum tilvikum gefin dæmi um úrlausn.

Í formála ritsins segir m.a.:  „Í lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, er kveðið á um að greiða skuli gjald af skjölum sem með beinum hætti tengjast eignaryfirfærslu eða eru grundvöllur opinberrar skráningar hér á landi. Lögin hafa tekið litlum breytingum frá setningu þeirra árið 1978. Á þeim tíma hafa hins vegar orðið miklar breytingar á gerð skjala, framkvæmd yfirfærslu á eignum ásamt því að rafræn skjöl eru nú orðin mjög almenn í notkun en þekktust ekki við setningu laganna. Af þessum sökum er túlkun og framkvæmd laganna í mörgum tilvikum orðin nokkuð erfið og óljósari en áður.“  Þá segir:  „ Í ljósi þess að álitamálum varðandi stimpilgjaldið hefur haldið áfram að fjölga, auk þess sem borið hefur á ósamræmi í gjaldtöku milli sýslumannsembætta, og annarra inheimtumanna gjaldsins, s.s. banka og tryggingafélaga, ákvað fjármálaráðherra að skipa starfshóp til að setja saman handbók um framkvæmd laganna, einkum varðandi samræmingu milli innheimtumanna í álagningu og innheimtu stimpilgjalds."    Einnig segir:  "Ljóst er að enn er til staðar þörf fyrir heildarendurskoðun á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, til meira samræmis við nútímaviðskiptahætti og mun ráðuneytið beita sér fyrir því að vinna við slíka endurskoðun hefjist á árinu 2012."

Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins við útgáfu ritsins kom fram að það væri von þess að útgáfa ritsins  styddi við samræmda álagningu og innheimtu stimpilgjalds hvar sem er á landinu með eins skilvirkum hætti og mögulegt væri þannig að tryggt væri að jafnræði ríkti milli greiðenda gjaldsins.

Nálgast má ritið hér á vefnum á slóðinni http://www.syslumenn.is/gjaldtaka/stimpilgjald/ 

og á vef fjármálaráðuneytisins undir kaflanum "útgefið efni eftir árum hér:  http://www.fjarmalaraduneyti.is/utgefid-efni/utgafa/yfirlit/