Breytt stjórnsýsluumdæmi sýslumannsembættanna á Hólmavík og Blönduósi

2.1.2012

Í kjölfar sameiningar sveitarfélaganna Bæjarhrepps og Húnaþings vestra sem tekur gildi 1. janúar 2012 verður breytt stjórnsýsluumdæmum sýslumannsembættanna á Hólmavík og Blönduósi. Er breytingin tilkynnt með breytingu á reglugerð nr. 66/2007 og tekur gildi frá sama tíma. 

Bæjarhreppur hefur til þessa fallið undir stjórnsýsluumdæmi sýslumannsins á Hólmavík og Húnaþing vestra undir stjórnsýsluumdæmi sýslumannsins á Blönduósi. Þá hefur sýslumaðurinn á Ísafirði farið með lögreglustjórn í Bæjarhreppi en sýslumaðurinn á Blönduósi með lögreglustjórn í Húnaþingi vestra.

Með reglugerðarbreytingunni mun sýslumaðurinn á Blönduósi frá áramótum annast stjórnsýslu og lögreglustjórn í hinu nýja sameinaða sveitarfélagi sem heita mun Húnaþing vestra.

Að mestu orðrétt heimild:  Frétt á vef innanríkisráðuneytisins, www.irr.is