Ársskýrslur sýslumanna

8.12.2017

Út er komin Ársskýsla embætta sýslumanna fyrir árin 2015 og 2016. Hana er aðeins að finna á vefnum syslumenn.is. Eins og nafnið bendir til er hún sameiginleg fyrir öll embætti sýslumanna en þau eru níu, tóku til starfa 1. janúar 2015. Ritstjóri er Sigurður Sigurðarson, framkvæmdastjóri Sýslumannaráðs.

Sýslumenn leggja til efni í skýrsluna, hver fyrr sitt embætti. Að auki er að finna í henni  fjölbreytilegt efni:

  • Ávarp dómsmálaráðherra
  • Skýrslur stjórna Sýslumannafélags Íslands
  • Rök fyrir sameingun embætta sýslumanna
  • Verkefni sýslumanna
  • Sérverkefni embættanna
  • Aðsókn á vefinn syslumenn.is
  • Skoðanakönnun Gallup meðal landsmanna um embætti sýslumanna
  • Könnun Starfsmannafélags ríkisstofnana um embætti sýslumanna
  • Yfirlit um starfsemi einstakra fagráða sýslumanna
  • Tölulegar upplýsingar úr starfakerfum sýslumanna

Tilgangurinn með skýrslunni er að gefa skýra mynd af starfsemi embætta sýslumanna á landinu, verkefnum og samvinnu á milli embætta. Meginmarkmið með nýrri skipan sýslumannsembættanna er í fyrsta lagi að þjónusta við almenning verði eins góð og kostur er. Í öðru lagi að rekstur embættanna sé eins hagkvæmur og mögulegt er. Í þriðja lagi að gera embættin betur í stakk búin til að taka að sér aukin verkefni. Fullyrða má að með fækkun embættanna úr 23 í níu hefur tekist að veita betri þjónustu en áður.

Sýslumannsembættin eru í raun miðstöð stjórnsýslu í héraði. Frá fornu fari hafa þau annast framkvæmdavald ríkisins, hvert á sínu svæði eftir því sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um. Miklu máli skiptir fyrir allan almenning að hann fái samskonar þjónustu óháð því til hvaða embættis er leitað.

Einna athyglisverðast er að skoða tölulegar upplýsingar úr starfakerfum sýslumanna. Þar má glöggt sjá að hversu starfsemin er viðamikil og skiptir máli, ekki aðeins fyrir almenning heldur einnig fyrir atvinnulífið í landinu.