Saga sýslumanna

Sýslumanna er fyrst getið hérlendis í handriti að sáttmála sem Íslendingar gerðu við Noregskonung á árunum 1262 til 1264. Síðar var sáttmálinn nefndur Gamli sáttmáli, en með honum má segja að Íslendingar hafi gerst þegnar Noregskonungs. Sýslumenn eru elstu veraldlegu embættismenn sem enn starfa á Íslandi og hafa alla tíð  verið mikilvægur hluti stjórnsýslunnar.

Sögu sýslumanna verða aldrei gerð skil svo vel sé í stuttu máli. Eftirfarandi texti er einungis yfirlit og fróðleiksmolar um einstök atriði í sögu þeirra.

Aðdragandi

Landnámsöld 874 -930

Frá upphafi landnáms Íslands um 874 eða þar um bil og til 930 er Alþingi var stofnað var hér ekkert ríkisvald og enginn sameiginlegur vettvangur til að ráða málum. Áður en Haraldur hárfagri (850-933) braut Noreg undir eina stjórn skiptist landið í mörg minni svæði, þar sem þing leiddu mál til lykta en þingstjórn er ævaforn með germönskum þjóðum, mun eldri en konungsstjórn. Í upphafi víkingaaldar eða um 800 voru mörg slík þing í Noregi og ýmis lög í gildi, en svæði sem einstök lög náðu yfir ekki ýkja víðáttumikil enda erfitt fyrir þorra manna að sækja þing um langan veg. Sameiginlegt þessum þingum, var að allir frjálsbornir og vopnfærir karlmenn áttu þangað þingsókn. Fyrir þau svæði sem sömu lög giltu, voru haldin allsherjarþing, svo sem Þrændalög og Gulaþing, sem a.m.k. sums staðar voru nefnd alþingi. Þing þessi voru sótt af fulltrúum bænda.

Landnámsmenn, sem flestir komu hingað frá Noregi, fluttu með sér lög og réttarvenjur frá sínu svæði. Telja má víst að að þeir landnámsmenn sem mest áttu undir sér sér hafi reynt að koma á vísi að þingum líkum þeim sem þeir höfðu vanist í heimkynnum sínum. Fer þó ekki sögum af nema tveimur slíkum þingum hér á landnámsöld. Annað setti Þórólfur Mostraskegg, landnámsmaður á Þórsnesi á Snæfellsnesi, Þórsnesþing, en heimildir um það eru ótraustar. Hitt þingið náði yfir landnám Ingólfs og var nefnt Kjalarnesþing. Það var aðeins dómþing en ekki löggjafarþing. Má gera ráð fyrir að þar hafi verið stuðst við þau lög og venjur sem fyrsti landnámsmaðurinn, Ingólfur Arnarson, og frændur hans höfðu vanist í heimahögum sínum á Hörðalandi í Noregi, en Þorsteinn sonur Ingólfs er talinn hafa ráðið miklu um stofnun þess og störf.

Í ljósi þess hvernig málum var skipað í Noregi og því hversu Ísland var víðfeðmt og sums staðar erfitt yfirferðar mætti telja eðlilegt að stofnað hefði verið til margra þinga hér og hvar um landið hvert með sínum sérstöku lögum. Þess í stað fær sú hugmynd framgang að landsmenn stofni til eins þings fyrir landið allt, allsherjarþing,og ein lög gildi fyrir landið allt. Þetta hefur þótt bera vitni nokkrum stórhug því engin norrænu þjóðanna, Danir, Svíar og Norðmenn eignuðust ein lög þau tæpu 350 ár sem þjóðveldið á Íslandi stóð.

Margt leiddi til stofnunar eins allsherjarþings. Ættir höfðu riðlast við flutning til landsins og frændfólk og tengdafólk bjó ekki lengur í nágrenni hvert við annað heldur á víð og dreif um landið. Þeim var því auðveldara að standa saman að málum ef tekið yrði upp eitt allsherjarþing. Þá riðlaðist réttur frá einstökum þingum Noregs er hingað var komið af sömu ástæðum. Menn úr ýmsum sveitum Noregs og jafnvel frá enn öðrum löndum höfðu reist sér ból hverjir innan um aðra og lá beinast við að bæta úr þeim glundroða sem af því skapaðist með setningu allsherjarlaga. Einnig má nefna að þrátt fyrir allt voru samgöngur hér á margan hátt greiðari en t.d. í Noregi, sem bæði er fjöllóttur og vegalengdir milli landshluta miklar auk þess sem Þingvellir voru afar vel í sveit settir miðað við aðstæður þess tíma, en þangað lágu þjóðleiðir úr öllum landsfjórðungum.

Þjóðveldisöld 930 - 1262-4

Sá réttur sem leiddur var í lög hér á landi við stofnun Alþingis á Þingvöllum við Öxará um 930 var ættaður frá Gulaþingi í Noregi. Þaðan kom fyrsti landnámsmaðurinn sem hér tók sér varanlega bólfestu, og ekki ósennilegt að það hafi ráðið nokkru um að stuðst var við Gulaþingslög auk þess sem gera má ráð fyrir að stuðst hafi verið við þau á Kjalarnesþingi. Í Íslendingabók Ara fróða, sem talin er skráð á árunum 1120-30, er svofelld frásögn tengd stofnun Alþingis:  Alþingi var sett að ráði Úlfljóts og allra landsmanna þar er nú er, en áður var þing á Kjalarnesi, það er Þorsteinn Ingólfssonur landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar og höfðingjar þeir er að því hurfu.

Í Landnámu segir að Úlfljótur hafi dvalist þrjá vetur í Noregi , ,,en er hann kom út , var sett Alþingi og höfðu menn síðan ein lög á landi hér.” Talið er að Úlfljótslög og hin nýja stjórnskipan hafi gengið í gildi um 930 og þar með væri stofnað allsherjarþing, Alþingi með löggjafar- og dómsvaldi fyrir landið allt og er upphaf þjóðveldisaldar miðað við þann atburð.

Gulaþingslög sem byggt var á samkvæmt framansögðu eru að mestu talinn venjuréttur sem geymdist í munnlegri varðveislu. Hin elstu þekktu lög Íslendinga í lögbókinni eða lagasafninu Grágás eiga eiga fátt sameiginlegt með þeim lögum úr Gulaþingi sem nú eru kunn úr rituðum heimildum, en annars er fremur lítið vitað um efni Gulaþingslaga. Grágás er samheiti yfir lagaskrár og brot af lagaskrám sem varðveist hafa frá þjóðveldisöld en ekki er vitað hvernig nafnið Grágás er til komið.

Menn urðu að geyma lögin í minni sér uns skráning þeirra hófst veturinn 1117-1118 eða tæpar tvær aldir. Þetta var hlutverk lögréttu og lögsögumanns. Skyldi lögsögumaður kynna lögin með því að segja þau upp sem kallað var. Embætti lögsögumanns var stofnað um leið og Alþingi og hélst til 1271. Var lögsögumaður þennan tíma hinn eini veraldlegi embættismaður allrar þjóðarinnar. Ekki er vitað til að lögsögumenn hafi verið í Noregi.

Fyrstu aldir Íslandsbyggðar fór lítið fyrir eiginlegu framkvæmdavaldi hérlendis. Landið var strjálbýlt og erfitt yfirferðar og vegna legu þess lítil hætta á innrásum annars staðar frá. Því má segja að bæði innri og ytri aðstæður hafi leitt til þess að framkvæmdavald varð ekki jafn sterkt og víðast annars staðar um svipað leyti, sem m.a. varð síðar til þess að landsmenn gengust Noregskonungi á hönd.

Þeir sem höfðu mest völd leikmanna hérlendis á þjóðveldisöld, það er utan kristni og kirkju, nefndust goðar. Um uppruna goðavaldsins er lítið vitað með vissu en þrátt fyrir að orðið goði og goðorð sé dregið af orðinu goð (guð) og eigi rætur að rekja til þeirrar fornu trúar að höfðingjar væru goðbornir og nytu því verndar guðanna var vettvangur þeirra einkum á veraldlega sviðinu. Goðar voru ættar- og héraðshöfðingjar, jafnir að lögum og enginn þeim æðri; þeir fóru með löggjafarvald á Alþingi og sátu þar á miðpalli Lögréttu og höfðu einir atkvæðisrétt, þeir fóru með dómsvald á vorþingi og Alþingi, tilnefndu menn þar í dóma og fóru auk þess í raun með framkvæmdarvald í landinu. Auk þessara formlegu starfa höfðu goðar ýmis afskipti af málum manna í héraði, allt þó eftir aðstæðum og skapferli þeirra.

Goðorð vardómsumdæmi eða löggæslusvæði og skattfrjáls eign goða. Framan af voru goðorð ekki landfræðilega afmarkaðar einingar.Ílögum um tíund sem tóku gildi um 1096 -1097 sagði um goðorð: ,,Veldi er það, en eigi fé." Goðorð voru arfgeng og gátu gengið kaupum og sölum, menn gátu fengið þau að gjöf eða jafnvel misst þau vegna yfirsjóna. Bændum var skylt að fylgja einhverjum goða og goðar áttu að sjá um lagalega vernd einstaklinga innan goðorða, verja þá gegn yfirgangi, gæta laga og réttar og varðveita frið í héraði. Svo átti að heita að bændur réðu hvaða goða þeir áttu undir og gátu þeir leitað skjóls hjá nýjum goða ef svo bar undir, en talið er að slík skipti hafi verið fremur fátíð í raun. Við stofnun alþingis er talið að landinu hafi verið skipt í 36 goðorð eða þrennar tylftir, en tylftir voru gjarnan notaðar við dómskipun á Norðurlöndum á þessum tíma. Með þessum fjölda goðorða hefur verið hægt að tryggja völd stærstu höfðingjaætta landsins og veita hæfilegum hópi annarra stærri bænda þátttöku í stjórn þess. Síðar eða um 965 var landinu skipt upp í landsfjórðunga og innan hvers fjórðungs voru þrjár þingháir sem hver hafði þrjú goðorð eða goða. Að auki voru þrjú aukagoðorð í Norðlendingafjórðungi sem var stærstur og fjölmennastur á landinu. Voru því 39 goðar starfandi.

Smám saman urðu goðorðin fastar landfræðilegar einingar og goðarnir heimtu skatt af bændum sem þurftu að heita goðum sínum trúnaði og samband goða og bænda breyttist í algert höfðingjavald yfir eiðsvörnum þegnum.

Með þeim ófriði, ofbeldi og sundrungu á síðari hluta þjóðveldisaldar sem nefnd hefur verið Sturlungaöld og nær yfir árin frá um 1220 til 1264losnaði mjög um hina fyrri skipan goðorðanna og völd og áhrif færðust á færri hendur. Þetta tímabil einkenndist af liðssafnaði valdamikilla höfðingja sem herjuðu hverjir á aðra með vígaferlum og gripdeildum en ekkert vald var til að framfylgja lögum. Við þetta stækkuðu einingarnar sem landið skiptist í smátt og smátt.Goðarnir urðu eins konar smákonungar sem leituðu til norska konungsvaldsins um stuðning við veldi sitt. Undir lok þjóðveldisaldar áttu fimm ættir öll goðorð landsins sem þau síðan létu smám saman af hendi til Noregskonungs 1251-64 en þá var svo komið að flestir Íslendingar voru farnir að þrá frið og réttaröryggi.Nokkur fjöldi hirðmanna Noregskonungs var einnig í landinu og einnig sátu norskir biskupar á Hólum og í Skálholti frá 1238. Noregskonungur hafði því nokkur ítök hér á landi. Honum líkaði illa sá ófriður sem hér geisaði og skipaði Gissur Þorvaldsson jarl yfir Íslandi árið 1258 með það að markmiði að koma landinu undir Noreg. Einnig má rekja aðdraganda þess að landið færðist undir Noregskonung til þess að á fyrri hluta 11. aldar lauk innanlandsófriði í Noregi með falli Skúla jarls. Eftir það gat konungur, Hákon, nefndur gamli, Hákonarson, beitt sér meira í málum utan Noregs og þar með reynt að auka áhrif sín hér á landi. Konungur kaus þá aðferð að gera íslenska höfðingja að lénsmönnum sínum. Urðu þeir þar með að lúta valdi hans en í staðinn þáðu þeir af honum m.a. gjafir, fylgdarmenn og virðingu. Því leið ekki á löngu þar til margir helstu höfðingjar Íslendinga voru orðnir handgengnir Noregskonungi.

Konungur naut þess einnig að kirkjan á Íslandi laut yfirstjórn erkibiskupsins á Niðarósi. Eitt helsta baráttumál kirkjunnar á þessum tíma var að tryggja frið og því sóttist hún eftir því að lægja ófriðarbálið hér á Íslandi. Árið 1247 urðu svo þáttaskil þegar Vilhjálmur kardináli kom til Noregs til að vígja Hákon konung. Kardínáli taldi mikilvægt að Ísland lyti einum manni og eftir þetta störfuðu kirkjan og norska krúnan saman að því að koma Íslandi undir Hákon. Á þessum tíma var þjóðerniskenndar ekki farið að gæta auk þess sem sjálfsagt þótti að lúta stjórn konungs.

Á alþingi 1262 sór nokkur hópur bænda Hákoni konungi land og þegna og gerðu samning þann við fulltrúa konungs sem síðar var nefndur Gamli sáttmáli. Fulltrúar einstakra svæða sóru konungi síðan skatt allt til 1264 að allt Ísland var komið undir Noregskonung, sem þá var orðinn Magnús lagabætir Hákonarson, sonur Hákonar gamla. Það er í öðrum sáttmála sem samþykktur var 1263 sem sýslumanna er fyrst getið hér á landi. Sá sáttmáli gilti þó ekki fyrir alla landsmenn þar eð Íslendingar höfðu ekki sem þjóðarheild gengdist Noregskonungi á hendur fyrr en 1264 þegar helstu höfðingjar í Austfirðingafjórðungi sömdu um skattgjald til konungs. Sáttmálinn geymir svohljóðandi ákvæði um sýslumenn: ,,Ítem að íslenskir séu lögmenn og sýslumenn hér á landinu af þeirr ætt sem að fornu hafa goðorðin upp gefið”. Orðalag þessa ákvæðis er reyndar ekki eins í öllum þeim eintökum sem birt eru í íslenskum fornritum en efnislega virðist ekki vera þar munur á. Sú kenning hefur verið sett fram að þetta ákvæði sé frá árinu 1302. Meiri líkur verða þó að teljast að það sé frá 1263 eða 1264 vegna þess að það var mjög vel fallið til þess að sætta goðana við að afhenda konungi goðorð sín gegn loforði um sýslumennsku eða lögmennsku.

Í Gamla sáttmála fólst í meginatriðum að Íslendingar gerðust þegnar Noregskonungs og greiddu honum skatt. Landið var þó ekki innlimað í veldi konungs heldur gert að skattlandi líkt og hjá Rómverjum fyrrum. Þótt Íslendingar hafi smátt og smátt glatað sjálfstæði sínu í kjölfar Gamla sáttmála þá voru þeim tryggð ákveðin réttindi. Meðal annars var þeim tryggður friður ásamt því að skipaferðir frá Noregi til landsins voru festar í lög. Landaurar voru afnumdir og erfðaskuldir íslenskra manna upp gefnar í Noregi. Þá fylgdi að veigamiklar breytingar voru gerðar á stjórnskipun landsins og goðaveldið fellt niður. Þess í stað komu til sögunnar embættismenn Noregskonungs, meðal annars hirðstjórar, merkismaður og sýslumenn eins og áður segir.

Með Gamla sáttmála voru lög landsins tekin til endurskoðunar og Grágás sem hafði frá fornu fari verið lögbók Íslendinga vék fyrir Járnsíðu árið 1271. Járnsíða þótti um margt henta íslenskum aðstæðum illa og vék hún fyrir Jónsbók árið 1281, sem var lögbók íslendinga næstu fimm aldirnar.

Helst embættismenn Noregskonungs hér á landi fyrstu aldirnar og allt til 1683 þegar landinu var skipaður stiftamtmaður voru hirðstjórar. Þeir tóku landið að léni og greiddi fyrir ákveðna upphæð fram til loka 14. aldar þegar þeir fengu ákveðinn hluta konungstekna af landinu. Til að byrja með var hirðstjóri fremstur umboðsmanna eða hirðar konungs (þ.e. sýslumanna) og sá sem varðveitti innsigli hans (sbr. merkismaður). Oftast var einn hirðstjóri skipaður fyrir allt landið, en stundum tveir; norðan og vestan og sunnan og austan. Eitt skipti (1357) voru fjórir hirðstjórar skipaðir; einn fyrir hvern fjórðung.

Hlutverk hirðstjóra var að hafa eftirlit með sýslumönnum, lesa konungsbréf á Alþingi þar sem hann sat í öndvegi, annast landvarnir, hafa eftirlit með verslun, nefna dóma í stærri málum, staðfesta dóma Lögréttu sem höfðu lagagildi, veita sýslur, annast skattheimtu og hafa umsjón með eignum konungs. Þegar yfirdómur var stofnaður 1593 var það hlutverk hirðstjóra að nefna 24 menn í hann.Fyrstu hirðstjórar á Íslandi voru höfðingjarnir Ormur Ormsson og Hrafn Oddsson. Sá síðasti var Henrik Bjelke, ríkis aðmíráll. Eftir lát hans var embættið lagt niður. Til að byrja með var embættið veitt til þriggja ára. Íslendingar gerðu kröfu um að hirðstjóri væri íslenskur og samþykktur af Lögréttu og var því yfirleitt fylgt fram á miðja 15. öld. Íslenskir hirðstjórar sátu á heimili sínu, en erlendir á Bessastöðum. Á 14. öld fóru hirðstjórar oft með sýsluvöld. Á 16. og 17. öld var hirðstjóri venjulega sjóliðsforingi eða aðmíráll í danska flotanum, án fastrar búsetu á Íslandi. Í fjarveru þeirra var hlutverkinu sinnt af fógeta.

Jónsbókartímabilið 1264-1732

Umdæmi sýslumanna, sýslurnar

Framan af Jónsbókar tímabilinu voru umdæmi sýslumanna nokkuð á reiki. Á seinni hluta tímabilsins eða um miðja sautjándu öld virðist komin meir festa á um þetta efni og hefur sýsluskipunin færst mjög í það horf, sem varð á 20. öld.

Í Jónsbók I,2, er landinu skipt niður í þing , sem í verulegum atriðum er talin eins og sýsluskipun sú sem komst á í landinu síðar. Í þessum sama lagastaf segir, að hver sýslumaður greiði þingfararkaup í sinni sýslu.

Í réttarbót konungs frá 1342 er talað um sýslur, sem lausar verða vegna fjarveru. Þá frávikning sýslumanns í lögmannsdómi frá 1505 um sýslumannsstarf m.a. byggð á þeirri sök að sýslumaður hafi hvorki haft bú né heimili í sýslu sinni. Í bréfi konungs frá 1657 er beinlínis ákveðið að hver sýslumaður skuli eiga heimili í sinni sýslu.

Þegar kemur fram á síðari hluta 17. aldar eru sýslumenn samtals orðnir yfir 20 í landinu, jafnvel 24. Hinum fornu þingum eða sýslum hefur þá verið skipt meira eða minna í smærri sýslur.

Veitingavaldið

Í Gamla sáttmála og lögbókunum eru engin ákvæði um hver skipi sýslumenn, en það hefur verið leitt af þeim ákvæðum Gamla sáttmála að sýslumenn skyldu vera íslenskir og af ættum þeirra sem gáfu upp goðorð að þetta vald væri á hendi konungs. Af réttarbót konungs frá 1342 má sjá að konungur hefur talið sig hafa veitingavaldið því að þar er svo boðið að enginn maður taki sýslur til nokkurs langframa, það sem koungdóminum heyri til að skipa.

Hinir fyrstu sýslumenn í landinu hafa að líkindum fengið sýsluvöld sín milliliðalaust frá konungi gegn uppgjöf goðorða sinna.

Þegar konungur tekur upp þann hátt að skipa einn hirðstjóra yfir allt landið (1341) og að minnsta kosti stundum leigja þeim landið sem lén virðist konungur fljótlega hafa afhent hirðstjórum valdið til þess að skipa sýslumenn. Eru t.d. nokkur skipunarbréf sýslumanna útgefin af hirðstjórum.

Stundum höfðu biskupar veitingavaldið. Ögmundi (Pálssyni) biskupi í Skálholti var t.d. fengið vald til að veita sýslur í sínu biskupsdæmi. Skipaði hann m.a. sýslumann í Rangárvallasýslu árið 1534 og aftur árið 1536.

Þótt konungur hafi falið öðrum veitingavaldið eru þess dæmi að hann hafi sjálfur veitt sýslur á sama tímabili. Til dæmis veitti konungur Hólabiskupi (Ólafi) Skagafjarðarsýslu til 10 ára sem lén. Nokkrum sinnum veitti konungur lögmönnum sýslur, sem lén í lögmannskaup.

Á síðasta hluta Jónsbókartímabilsins hafði konungur meiri afskipti af skipun sýslumanna, en virðist hafa tíðkast um þriggja alda skeið. T.d. er amtmanni Í instruction for amtmanden frá 1688 fyrirskipað að tilkynna konungi um veraldleg embætti sem laus verða svo að hann geti haft íhlutun um skipun þeirra.

Af framansögðu sýnist konungur sjálfur hafa veitt sýslur á fyrsta hluta Jónsbókartímabilsins. Mestan hluta tímabilsins sýnist veitingarvaldið aðallega hafa verið hjá hirðstjórum eða öðrum þeim, sem höfðu völd slík, sem hirðstjórar höfðu. Sýslumannsveitingar þeirra, sem gilda áttu til langfram virðast hafa verið háðar staðfestingu eða samþykki á Alþingi. Við lok tímabilsins mun konungur hafa tekið veitingavaldið að mestu eða öllu í sínar hendur.

Skipunar- og embættistími

Í flestum skipunarbréfum sýslumanna sem íslenskt fornbréfasafn hefur að geyma frá 15. og 16. öld segir að sýslumaður haldi umboði eða sýslu konungs til næsta Öxarárþings ef ekki verði önnur skipun á gerð. Í öðrum bréfum segir aðeins að sýslumaður haldi umboði eða sýslu konungs til næsta Öxarárþings. Áður er nefnt er Hólabiskup var skipaður var skipunartími hans 10 ár. Í einu skipunarbréfi segir að sýslumaður haldi sýslu í næstu 3 ár og það lengur sem eigi er önnur lögleg skipan á gerð. Öxarárþing er þar ekki nefnt fremur en í sumum bréfum öðrum. Hefur verið talið að skipun sýslumanna skyldi að jafnaði borin undir Alþingi.

Skipunarbréf

Þótt aðeins fáein skipunarbréf séu birt í fornbréfasafninu má gera ráð fyrir að sýslumenn hafi yfirleitt fengið skipunarbréf fyrir sýslu sinni. Í réttarbót frá 1313 er sýslumönnum til að mynda boðið að leggja svo hvers manns mál niður, sem sýslubréf þeirra vottar, svo að þá hafa sýslubréfin verið gefin sýslumönnum. Í réttarbót 1703 er sýslumönnum boðið að sýna á næsta þingi staðfest eftirrit af sínum bestillingarbréfum.

Á 17. öld er þess getið að í Alþingisbókum að veitingarbréf sýslumanna hafi verið lesin eða birt á Alþingi. Ekki er þar getið samþykktar á veitingum þessum.

Skilyrði fyrir sýslumannsstarfi

Samkvæmt Gamla sáttmála áttu sýslumenn að vera a) íslenskir og b) af ættum þeirra, sem upp hafa gefið goðorðin. Hins vegar eru engin ákvæði um þetta í lögbókunum Járnsíðu og Jónsbók.

Alþingi mun hafa viljað halda fast við það skilyrði að sýslumenn væru íslenskir. Kemur þetta m.a. fram í bréfi til konungs frá Alþingi frá 1579 þar sem vísað er til Gamla sáttmála og víðar. Er þetta án efa af gefnu tilefni, en í sýslumannsæfum Boga Benediktssonar má finna eina 100 erlenda sýslumenn fram að miðri sautjándu öld.

Síðara skilyrði Gamla sáttmála um að sýslumenn skyldu vera af ættum þeirra sem uppi hafa gefið goðorðin mun varla hafa átt sér langan aldur í framkvæmd þótt það hafi verið þýðingarmikið í upphafi þar sem goðarnir voru fúsari til að gefa upp goðorð sín mótþróalaust, gegn forgangsrétti til sýslumannsstarfa, sem þeim var heitið til afkomenda sinna.

Á þessum tímum var ekki gerð krafa um lærdóm eða sérmenntun enda engin viðurkennd opinber stofnun sem veitti kennslu í lögfræði. Sýslumönnum var auðvitað nauðsynlegt að vita sem best skil á gildandi lögum til þess að geta rækt störf sín sómasamlega. Flestir þeirra hafa án vafa þekkt allvel til laga, þótt sjálfsagt væri það misjafnt.

Ætla má að sýslumenn hafi þurft að vera nægilega vel efnum búnir til að geta gegnt starfanum sómasamlega nema bændur samþykktu annað.

Samkvæmt opnu bréfi konungs frá 1619 áttu allir sýslumenn að vinna sýslumannseið á þá leið, ,,-at de ville vere os og Riget og Lande hudog tru udi alle maade saa ogsaa udi alt hvis deris Bestilling vedkommende-“ og svo framvegis. Bréf þetta var lesið á Alþingi sama ár og þar með auðmýkt játað af öllum sýslumönnum.