Saga embættisins á Vesturlandi

Sýslumaðurinn á Snæfellsnesi

Í tímaritinu Breiðfirðingi, 58. - 59. árg. 2000 - 2001, birtist greinin "Sýslumenn á Snæfellsnesi" eftir Ólaf K. Ólafsson, sýslumann Snæfellinga. Greinin er birt hér í heild sinni:

"Það var með ánægju að ég þáði boð Einars G. Péturssonar, ritstjóra Breiðfirðings, um að skrifa grein í tímaritið. Bæði er að mér er hlýtt til Breiðfirðings og eins hitt að þá gefst mér tækifæri á því að leiðrétta missagnir í samantekt þeirri er ég gerði í tilefni af vígslu nýs húsnæðis sýslumanns Snæfellinga að Borgarbraut 2 í Stykkishólmi 20. október 2000.

Samantektina gerði ég til að reyna varpa ofurlitlu ljósi á þá aldalöngu sögu er hvílir að baki embætta sýslumanna. Gerði ég það með því að tína saman fróðleiksmola úr ýmsum áttum og koma þeim í samfellda frásögn. Ekki fór fram nein sjálfstæð rannsókn hjá mér á heimildum og því mátti búast við því að missagnir kæmu fram í samantektinni.

Það eru þrjú atriði sem mér hefur verið bent á að ekki séu rétt í samantektinni. Hér á eftir ætla ég að nefna þau; hvernig mér bárust ábendingarnar og síðan það sem sannara hefur reynst. Að því loknu kemur samantektin í heild sinni eins og henni var
dreift við vígslu húsnæðisins.

I

Í samantektinni segir að Sýslumannshúsið, sem Sigurður Jónsson sýslumaður reisti í Stykkishólmi 1885, hafi brunnið 1932. Sú leiðrétting barst mér frá Ágústi Bjartmarz í Stykkishólmi að Sýslumannshúsið hafi brunnið 25. nóvember 1933. Það staðfesti Kristjana Kristinsdóttir, skjalavörður hjá Þjóðskjalasafni Íslands, við mig eftir að hún hafði kannað fréttir útvarps og dagblaðs frá þessum tíma.

II

Í samantektinni segir að Aðalgötu 7, Stykkishólmi, - Læknishúsið - hafi Guðmundur Guðmundsson læknir byggt 1896. Sú ábending barst mér einnig frá Ágústi Bjartmarz að það hafi verið Davíð Scheving Thorsteinsson læknir sem byggði Læknishúsið. Sama kemur einnig fram á bakhlið myndar af Læknishúsinu sem Rakel Olsen og fjölskylda færðu embætti sýslumanns Snæfellinga að gjöf frá Sig. Ágústssyni ehf. í tilefni að vígslu nýja húsnæðisins. Þessi ábending er að öllum líkndum rétt því eins og fram kemur í ritinu “Læknar á Íslandi” var Davíð Scheving Thorsteinsson læknir í Stykkis- hólmi 1896 og samkvæmt sóknarmannatali bjó hann þá í “Læknishúsi”. Að því gefnu að átt sé við sama “Læknishúsið” hef ég það nú fyrir satt að Davíð Scheving Thorsteinsson hafi byggt húsið þó að veðmálabækur nefni fyrst nafn Guðmundar Guðmundssonar.

III


Í sýslumannatali því, er fylgir samantektinni, segir að Greges Knudsson Bang hafi verið sýslumaður í Snæfellsnessýslu frá 1650 til 1656. Þegar Kristjana Kristinsdóttir var að vinna að ritgerð sinni “Um konur í íslenskum lénsreikningum 1645-1648”, sem birtast mun í ritinu “Kvennaslóðir”, sá hún lénsreikninga frá 1647 og 1648 þar sem Greges Knudsson Bang skilar af sér afgjöldum vegna Arnarstapaumboðs og Snæfells- nessýslu. Hér eru því komin veruleg líkindi fyrir því að Greges Knudsson Bang hafi fengið sýsluna fyrir 1650 þó annað megi ráða af Sýslumannaæfum Boga Benedikts- sonar.

IV

Hér á eftir fer samantektin:

Upphaf embætta sýslumanna og sýslna.

Það er ekki tvímælalaust hvenær telja eigi embætti sýslumanna stofnuð. Hvort tveggja hefur verið sagt að eftir 1268 hafi Íslandi verið stýrt af sýslumönnum konungs og að embætti sýslumanna hafi verið stofnað 1271 með lögfestingu þingfararbálks Járnsíðu.

Á miðöldum merkti sýsla það landsvæði sem embættismaður hafði til yfirsóknar. Stærð og mörk sýslana voru á þeim tíma mjög á reiki. Eftir lok miðalda verða sýslur að föstum landfræðilegum stjórnsýslueiningum.

Í Jónsbók, sem lögtekin var á Íslandi 1281, er landinu skipt niður í þing,sem í stórum dráttum samsvara vorþinghám þjóðveldistímans. Takmörk þinganna sem Jónsbók nefnir falla víða saman við takmörk sýslna á síðari tímum. Þó var það svo að framan af Jónsbókartímabilinu, sem stóð til upphafs 18. aldar, voru umdæmi sýslumanna nokkuð á reiki. Á seinni hluta tímabilsins, um miðja 17. öld, virðist komin meiri festa á um þessi efni, og sýsluskipunin hefur þá færst í það horf, sem síðar varð.

Innan marka hins forna Þórsnesþings voru landsvæði er síðar féllu til Hnappadals- sýslu, Snæfellsnessýslu og Dalasýslu. Dalirnir greindust fyrst frá innan Þórsnesþings og er sú skipting með vissu um garð gengin um miðja 15. öld. Í skjali, dagsettu 26. júní 1459, er þess getið að sýslumaður milli Hítarár og Skraumu nefni menn í dóm. Um- dæmi sýslumannsins hefur þá samsvarað að mestu því umdæmi er síðar var nefnt Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla. Heiti Snæfellsnessýslu kemur fyrst fyrir í skjali 1546 og heiti Hnappadalssýslu 1615. Það sama ár var Hnappadalssýsla skilin frá Snæfellsnessýslu og gerð að sérstöku sýslumannsumdæmi. Hélst sú skipan til 1786 er Hnappadalssýsla var sameinuð Mýrasýslu. Frá 1871 hafa Snæfellsnessýsla og Hnappadalssýsla hins vegar fallið undir einn sýslumann.


Arnarstapaumboð á Snæfellsnesi.


Helgafellsklaustur á Snæfellsnesi var um siðaskipti auðugast íslenskra klaustra af jarðeignum. Talið er að klausturhald hafi verið lagt formlega og endanlega af hér á landi 12. mars 1554.

Í kjölfar siðaskiptanna lagði Danakonungur hald á mestan hluta klaustureigna og gerði jarðeignir klaustranna að lénum eða umboðum eins og þau voru gjarnan kölluð.

Umboð konungs má líta á sem eins konar fyrirtæki sem rekið var til þess að hafa af því tekjur. Svonefndir umboðsmenn voru nokkurs konar framkvæmdastjórar og sáu um reksturinn. Þeir áttu að sjá um að leigja jarðirnar, innheimta leigugjald fyrir þær, land- skuldir, og það kvikfé sem leigt var með jörðunum, jarðarkúgildi. Þeir þurftu að fylgjast með því að leiguliðar héldu leiguskilmála þá sem byggingabréf kváðu á um. Þetta krafðist þess að taka þurfti jarðir út við ábúendaskipti.

Frá 1554 til 1565 var klausturjörðin sjálf, Helgafell, höfuðból umboðsins og lénið nefnt eftir klaustrinu, Helgafellsklaustur. Árið 1565 tók Danakonungur jörðina Arnarstapa eignarnámi. Eftir það verður Arnarstapi höfuðból umboðsins og það síðan kennt við Arnarstapa.

Á 17. öld er það orðin meginregla að sýslumenn Snæfellsnessýslu fengu saman sýsluvöld og Arnarstapaumboð.

Heimili sýslumanna og skrifstofur embætta þeirra 
á Snæfellsnesi og í Stykkishólmi.

Frá upphafi embætta sýslumanna og fram á 20. öldina voru heimili sýslumanna jafn- framt skrifstofur embætta þeirra. Við upphaf 20. aldarinnar og fram eftir öldinni flytjast skrifstofur embættanna út af heimilum sýslumanna.

Áður bjuggu sýslumenn Snæfellinga á jörðum á Snæfellsnesi. Færu sýsluvöld og um- boðsmennska Arnarstapaumboðs saman bjuggu sýslumenn á Arnarstapa og síðar á Ingjaldshóli. Annars bjuggu sýslumenn á jörðum eins og Staðarstað og Hallbjarnareyri því engin ábýlisjörð innan sýslunnar var tiltekin handa sýslumanni.

Upphaf þess að aðsetur sýslumanna flyst til Stykkishólms má miða við Pál Melsteð, sem gegndi embætti sýslumanns frá 1849 til 1854. Hann var fyrsti sýslumaðurinn er bjó hluta af sínum embættistíma í Stykkishólmi og sýslumenn á eftir honum hafa allir búið í Stykkishólmi. Fyrsta vetur sinn í embætti bjó hann í húsum Árna Thorlaciusar í Stykkishólmi. Páll Melsteð gerði sér vonir um að fá eigið húsnæði í Stykkishólmi veturinn 1850 og flutti því fjölskyldu sína til sín. Ekki gekk það eftir og flutti hann sig að Búðum. Síðar kaupir Páll Melsteð Bjarnarhöfn og bjó þar til þess er hann lét af embætti.

Páll Melsteð lenti í þeim sígilda vanda embættismanns um miðja 19 öldina að hafa ekki bújörð innan sýslunnar meðfram embættinu en kostnaðarsöm og vafasöm fjárfesting þótti að byggja eða reisa hús í kaupstað.

Sigurður Jónsson sýslumaður reisti Sýslumannshúsið 1885 í Stykkishólmi. Stóð það við sýsluveginn um Þinghúshöfða, þar sem nú er gamli barnaskólinn. Sigurður Jónsson gegndi embætti til æviloka 1893. Tveir næstu skipuðu sýslumenn, þeir Lárus H. Bjarnason og Guðmundur Eggerz, bjuggu og störfuðu í Sýslumannshúsinu. Guðmundur Eggerz bjó í húsinu til 1910 er það var tekið undir barnaskóla. Sýslu- mannshúsið brann 1932. Síðasta ár sitt í embætti bjó Guðmundur í Egilsenhúsi.

Páll Vídalín Bjarnason er skipaður til embættis sýslumanns 1912 og bjó fyrst um sinn í Kúldshúsi. Síðan flutti hann heimili sitt og skrifstofu í Möllersapótek, sem stóð á planinu samsíða núverandi apóteki í Stykkishólmi.

Fyrstur bjó Jón Steingrímsson sýslumanna í því húsi sem skrifstofa sýslumanns Snæ- fellinga flytur nú úr. Síðan hafa allir sýslumenn Snæfellinga starfað í húsinu. Húsið byggði Guðmundur Guðmundsson læknir 1896 og gekk það áður undir nöfnunum Læknishúsið, Breiðablik og loks Sigurhæðir en er nú númer 7 við Aðalgötu í Stykkis- hólmi.

Fram til 1978 var Aðalgata 7 bæði heimili og skrifstofa sýslumanns. Byggt var við húsið eftir því sem umfang embættis sýslumanns jókst en að lokum dugði það ekki til og flutti sýslumaður þá heimili sitt úr húsinu að Aðalgötu 13, þar sem það er enn.

Fangahús í Stykkishólmi.

Árið 1875 var reist fangahús í Stykkishólmi. Stóð það við sýsluveginn um Þinghúshöfða og síðar var Sýslumannshúsið reist við hliðina á fangahúsinu.

Fangahús voru reist víðar um landið á þessum tíma og í Reykjavík var Hegningarhúsið byggt. Var það liður í breyttum viðhorfum til refsinga. Líkamlegar refsingar fyrir smærri afbrot voru aflagðar með hegningarlögum 1867 en í staðinn var tekinn upp refsivist upp á vatn og brauð.

Fangahúsið stóð til 1945 en 1942 hætti embætti sýslumanns að nota húsið.

Lögregluvarðstofur á Snæfellsnesi.

Embætti sýslumanns Snæfellinga hefur í áranna rás haft lögregluvarðstofur á ýmsum stöðum innan sýslunnar.

Á Hellissandi var lögregluvarðstofa í Félagsheimilinu Röst að Snæfellsási 2 frá árinu 1964 til ársins 1978. Það ár var hún flutt inn til Ólafsvíkur og sameinuð lögregluvarð- stofunni þar.

Í Ólafsvík hefur lögregluvarðstofa verið á neðri hæð Ólafsbrautar 34 frá árinu 1963. Þar hefur einnig verið til húsa umboðsskrifstofa embættisins. Árið 1999 eignaðist ríkis- sjóður allt húsið með kaupum á efri hæð þess. Þá hófst undirbúningur að endurbótum alls hússins og standa framkvæmdir nú yfir. Áður en embættið fékk Ólafsbraut 34 fyrir lögregluvarðstofu voru heimili lögreglumanna jafnframt einskonar lögregluvarðstofur.

Í Grundarfirði hefur lögregluvarðstofa verið til húsa að Grundargötu 33 frá árinu 1978. Þar áður var lögregluvarðstofan til húsa að Hrannarstíg 3 frá árinu 1973 til ársins 1978. Með tilkomu nýbyggingarinnar í Stykkishólmi verður húsið er hýsir lögregluvarðstofuna í Stykkishólmi flutt að Hrannarstíg í Grundarfirði og verður lögregluvarðstofan í Grundarfirði þar til húsa ásamt skrifstofu.

Í Stykkishólmi var byggt hús fyrir lögregluvarðstofu að Skúlagötu 10 árið 1960 og var hún þar til húsa til ársins 1990. Þá var keypt nýtt timburhús fyrir lögregluvarðstofu og því fengin lóð að Nesvegi 1a. Síðan hefur húsið að Skúlagötu verið notað fyrir skjala- geymslu embættisins.

Stjórnsýsluumdæmi sýslumanna
samkvæmt lögum um framkvæmdavald ríkisins í héraði.

Samkvæmt lögum um framkvæmdavald ríkisins í héraði, frá 1989 með síðari breytingum, er landinu skipt í 26 stjórnsýsluumdæmi og eru mörk stjórnsýsluumdæma sýslumanna ákveðin með reglugerð að fenginni umsögn viðkomandi sýslumanna og sveitarstjórn. Nú er í gildi reglugerð nr. 57/1992, með síðari breytingum, um stjórn- sýsluumdæmi sýslumanna. Mörk þeirra eru nú ákveðin með þeim hætti að talin eru upp þau sveitarfélög er til stjórnsýsluumdæmis sýslumanns falla. Að mestu leyti falla umdæmin saman við hinar fornu sýslur; þó er það ekki algilt. Til dæmis um það má nefna að Skógarstrandarhreppur, sem alla tíð hefur fallið til Snæfellsnessýslu, var með breytingu á reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna 3. febrúar 1998 færður undir stjórnsýsluumdæmi sýslumannsins í Búðardal. Áður hafði félagsmálaráðuneytið sameinað Skógarstrandarhrepp Dalabyggð frá 1. janúar 1998 að telja.

Nú falla til stjórnsýsluumdæmis sýslumanns Snæfellinga sveitarfélögin: Kolbeinsstaða- hreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Eyrarsveit, Helgafellssveit og Stykkishólmur.

Algengast er nú að embættisheiti sýslumanna fari eftir aðsetursstað þeirra. En einnig þekkist að sýslumenn noti hin eldri embættisheiti. Hvort tveggja er jafn gilt að öllu leyti.

Borgarbraut 2, Stykkishólmi.

Í aldalangri sögu embættis sýslumanns Snæfellinga er nú í fyrsta sinn byggt hús sem eingöngu er ætlað að hýsa skrifstofu embættisins auk lögregluvarðstofu.

Húsið stendur á lóðinni nr. 2 við Borgarbraut í Stykkishólmi. Á sama tíma og húsið er tekið í notkun hættir embættið að nota húsin að Aðalgötu 7, Nesvegi 1a og Skúlagötu 10 í Stykkishólmi. Húsið að Nesvegi 1a verður hins vegar flutt til Grundarfjarðar og hýsir þar lögregluvarðstofu og skrifstofu eins og fyrr segir.

Húsið að Borgarbraut 2 var teiknað á Teiknistofu arkitekta Gylfa Guðjónssonar og félaga. Fyrstu skóflustungu að húsinu tók Þorsteinn Pálsson, þáverandi dómsmála- ráðherra, 28. janúar 1999. Framkvæmdasýsla ríkisins hafði umsjón með fram- kvæmdum fyrir hönd verkkaupa, ríkissjóðs. Trésmíðaverkstæði Pálmars Einarssonar, Grundarfirði, var verktaki húsbyggingarinnar. Dómsmálaráðherra Sólveig Pétursdóttir vígði húsið.

 

Sýslumannatal.

Sæmundur Árnason

1615 - 1624

Steindór Gíslason

1624 - 1630

Laurus Hansson

1630 - 1641

Runólfur Sigurðsson
1641
Sigurður Jónsson
1641 - 1650
Gregers Knutsson Bang
1650 - 1656
Matthías Guðmundsson
1656 - 1671
Christófer Roher
1667 - 1668
Jakob Benediktsson
1671 - 1680
Þórður Steindórsson
1680 - 1688
Magnús Jónsson
1688 - 1694
Einar Eyjólfsson
1694 - 1695
Andres Andresson
1695 - 1696
Magnús Björnsson
1696 - 1707
Oddur Sigurðsson
1707 - 1721
Jóhann Lárusson Gottrup
1721 - 1734
Guðmundur Sigurðsson
1734 - 1753
Einar Jónsson
1753 - 1754
Jón Árnason
1754 - 1777
Þorlákur Magnússon Ísfjörð
1777 - 1778
Jón Arnórsson
1778 - 1792
Finnur Jónsson
1792
Jón Jónsson Espólín
1792 - 1796
Finnur Jónsson
1796 - 1805
Sigurður Guðlaugsson
1805 - 1817
Otti Effersöe
1817 - 1818
Sigurður Guðlaugsson
1818
Isaach Jakob Bonnesen
1818 - 1823
Ólafur Guðmundsson
1823
Eiríkur Sverrisson
1823 - 1828
Páll Benediktsson
1828
Kristján Magnúsen
1828 - 1838
Sigfús Skúlason Schulesen
1838 - 1842
Árni Thorsteinsen
1842 - 1848
Þorvaldur Sigurðsson
1848 - 1849
Páll Pálsson Melsteð
1849 - 1854
Bogi Bjarnason Thorarensen
1854 - 1855
Árni Thorlacius
1855 - 1856
Árni Bjarnason Thorsteinson
1856 - 1861
Árni Thorlacius
1861 - 1863
Præben Böving
1863 - 1869
Árni Thorlacius
1869 - 1871
Skúli Magnússon Nordahl
1871 - 1878
Sigurður Jónsson
1878 - 1893
Sigurður Eggertsson Briem
1893 - 1894
Lárus H. Bjarnason
1894 - 1906
Guðmundur Eggerz
1906 - 1911
Magnús Benedikt Blöndal
1911 - 1912
Sigurjón Markússon
1912
Páll Vídalín Bjarnason
1912 - 1930
Jón Steingrímsson
1930 - 1937
Jón Hallvarðsson
1937 - 1940
Kristján Steingrímsson
1940 - 1949
Hinrik Jónsson
1949 - 1965
Friðjón Þórðarson
1965 - 1975
Andrés Valdimarsson
1975 - 1982
Jóhannes Árnason
1982 - 1989
Jón Magnússon
1989 - 1992
Ólafur K. Ólafsson
1992 -


Við þessa samantekt var stuðst við eftirtaldar heimildir:
Skriflegar:
1. Húsakönnun Stykkishólmi,
höf. Hörður Ágústsson, útg. Rvík. 1978.
2. Lögfræðingatal, útg. Rvík. 1993.
3. Minningarbók Guðmundar Eggerz
sýslumanns, höf. Guðmundur Eggerz,
útg. Rvík. 1952.
4. Saga tímarit Sögufélags 1998, Embættismenn
konungs fyrir 1400 eftir Axel Kristinsson.
5. Saga Jóns Espólíns hin fróða sýslumanns í
Hegranesþingi, útg. 1895.
6. Saga Stykkishólms II 1845 - 1892, höf.
Ásgeir Ásgeirsson, útg. Stykkishólmi 1997.
7. Saga sveitarstjórnar á Íslandi,
höf. Lýður Björnsson, útg Rvík. 1972.
8. Sjávarbyggð undir Jökli. Saga Fróðárhrepps
eftir Ólaf Ásgeirsson, Eirík Guðmundsson
og Jón Árna Friðjónsson, útg. 1988.
9. Sýslumannaæfir eftir Boga Benediktsson
10. Sýslu- og sóknarlýsingar Hins íslenzka
Bókmenntafélags, útg. Rvík. 1970.
11. Tímarit lögfræðinga 1965, Sýslumenn
á Jónsbókartímabilinu 1264 - 1732
eftir Hjálmar Vilhjálmsson.
Munnlegar:
1. Ægir Jóhannsson, Stykkishólmi,
3. nóvember 1999. 2. Árni Helgason, Stykkishólmi,
22. desember 1999."


Sýslumaðurinn í Borgarnes

Þessir hafa gegnt því embætti sem nú nefnist sýslumaðurinn í Borgarnesi:

 • Jón Thoroddsen 1861-1886
 • Eggert Theódór Jónsson 1868 verður hann sýslumaður Borgarfjarðarsýslu
  1869-1871 Mýra og Hnappadalssýsla
  1871-1878 Mýra og Borgarfjarðarsýsla
 • Guðmundur Pálsson  1878-1886, sýslumaður í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu
 • Sigurður Þórðarson  1886-1914, sýslumaður í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu
 • Björn Þórðarson  1914-1915, sýslumaður í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu
 • Sigurður Eggerz 1915-1917, sýslumaður í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu
 • Kristján Linnet  1917-1918, sýslumaður í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu
 • Guðmundur Björnsson 1918-1937, sýslumaður í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu
 • Jón Steingrímsson 1937-1961, sýslumaður í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu
 • Ásgeir Pétursson 1961-1979, sýslumaður í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu
 • Rúnar Guðjónsson 1979-1992, sýslumaður í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu, 1992 sýslumaður i Borgarnesi  
 • Stefán Skarphéðinsson 1994 -  sýslumaður í Borgarnesi

Sýslumaðurinn á Akranesi

Embætti bæjarfógetans á Akranesi, síðar sýslumaðurinn á Akranesi, var stofnað 1. janúar 1942.
Eftirtaldir hafa gegnt embættinu:

 • Þórhallur Sæmundsson frá 1. janúar 1942 til 30.september 1967.
 • Jónas Thoroddssen frá 1. október 1967 til 30. ágúst 1973.
 • Björgvin Bjarnason frá 30. ágúst 1973 til 1. nóvember 1985.
 • Sigurður Gizurarson frá 1.nóvember 1985 til 1. júlí 1998.
 • Ólafur Þór Hauksson frá 1. júlí 1998