Mannauðsstefna Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu

Mannauðsstefna Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu er leiðarljós í starfsháttum innan embættisins. Henni er ætlað að ýta undir samræmi og jafnræði í stjórnun og ákvarðanatöku, og vera leiðarljós varðandi gagnkvæmar væntingar starfsfólks og embættis. 

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur það að markmiði að vera góður vinnustaður þar sem starfsfólk myndar öfluga liðsheild sem veitir góða þjónustu, byggir á fagmennsku í starfi og skapar umhverfi þar sem virðing, traust og samvinna er viðhöfð.

Hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu er lögð rík áhersla á að veita viðskiptavinum góða þjónustu og er það sameiginleg ábyrgð allra starfsmanna.

Ráðningar og móttaka nýliða

Embættið leitast við að ráða til starfa hæft og áhugasamt starfsfólk sem hefur metnað til að veita góða þjónustu. Ráðningar byggja á faglegu ráðningarferli þar sem hæfasti einstaklingurinn er ráðinn út frá menntun, reynslu, færni og hæfni. Lögð er áhersla á að taka vel á móti nýju starfsfólki, að það komist hratt og örugglega inn í starfið og læri á þá verkferla, vinnubrögð og viðhorf sem þarf til sinna starfinu vel.

Starfsþróun, fræðsla og miðlun þekkingar

Leitast er við að gefa starfsfólki embættisins kost á að þróast í starfi, s.s. með fræðslu eða þjálfun, takast á við ný verkefni og/eða með aukinni ábyrgð. Starfsmenn eru hvattir sækjast eftir og miðla þekkingu með það að leiðarljósi að innri og ytri þjónusta embættisins sé ávallt sem best og byggð á fagmennsku og trausti. Starfsþróun, fræðsla og miðlun þekkingar er sameiginlegt verkefni starfsmanna og stjórnenda, þar sem báðir aðilar þurfa að vera vakandi fyrir tækifærum til þróunar.

Upplýsingamiðlun, samskipti og starfsandi

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu leggur áherslu á menningu þar sem virðing, samvinna og samheldni er ríkjandi. Allir starfsmenn eru hluti af vinnustaðamenningunni og er því sameiginlegt verkefni allra að sýna jákvæðni og frumkvæði og leggja sitt af mörkum til að skapa góða liðsheild og góðan starfsanda. Stjórnendur skulu vera til fyrirmyndar í upplýsingamiðlun og stuðla að góðu aðgengi upplýsinga en það er allra starfsmanna að miðla upplýsingum og þekkingu. Áhersla er lögð á uppbyggileg samskipti starfsmanna sem byggja á gagnkvæmu trausti og virðingu

Starfsumhverfi og öryggi

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu leitast við að skapa vinnuumhverfi þar sem vinnuaðstæður eru heilsusamlegar og öryggis er gætt í hvívetna til að tryggja vellíðan og árangur starfsmanna. Lögð er áhersla á að vinnuaðstaða og búnaður geri starfsfólki kleift að sinna starfi sínu sem best og veita góða þjónustu við öruggar aðstæður.

Jafnrétti og sanngirni

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu leggur áherslu á virðingu fyrir fjölbreytileikanum, að allt starfsfólk njóti virðingar, hafi jafna stöðu og tækifæri. Starfsfólk vinnur með störf sín með jafnrétti og jafnræði að leiðarljósi og er þess gætt í ákvarðanatöku innanhúss. Leitast er við að gæta jafnræðis í launum og greiða sambærileg laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Heilsa og vellíðan

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er vinnustaður þar sem lögð er áhersla á jafnvægi vinnu og einkalífs og vellíðan í starfi. Stuðlað er að heilbrigði og góðri líðan starfsmanna, m.a. með heilsusamlegu og hvetjandi starfsumhverfi, styrk til heilsuræktar og hollum mat í mötuneyti. Vellíðan á vinnustað er samstarfsverkefni alls starfsfólks og bera því allir starfsmenn ábyrgð á að stuðla að vellíðan og taka þátt í að skapa starfsumhverfi sem er laust við einelti og áreitni. Einelti, kynferðisleg áreitni eða ofbeldi er ekki liðið innan embættisins.

Stjórnun

Stjórnendur skulu vera samstíga í allri stjórnun og þannig vera til fyrirmyndar, leggja sitt af mörkum til að byggja upp jákvætt og uppbyggilegt starfsumhverfi sem leiðir til árangurs og vellíðunar starfsmanna. Stjórnendur veita markvissa endurgjöf, virkja og hvetja starfsfólk sitt og tryggja gott upplýsingaflæði. Þeir dreifa ábyrgð og verkefnum og hvetja til umbóta og samvinnu. Lögð er áhersla á markvissa upplýsingamiðlun og skýrar boðleiðir.

Útg. 1.2.2018