Jafnréttisstefna Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu
Jafnréttisstefna Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu byggir á jafnréttislögum nr. 10/2008 sem tryggja eiga konum og körlum jöfn tækifæri á öllum sviðum samfélagsins.
Stefna Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu er að gæta fyllsta
jafnréttis milli kvenna og karla og að hver starfsmaður verði metinn á eigin
forsendum. Kynbundin mismunun er ekki liðin. Jafnréttisstefnu skal fylgt í
hvívetna og á það jafnt við um innra og ytra starf embættisins, s.s. við
stefnumótun, áætlanagerð og framkvæmd
þjónustu.
Framkvæmdastjórn ber sameiginlega ábyrgð á framgangi jafnréttismála. Mannauðsstjóri ber ábyrgð á að áætluninni sé fylgt eftir þ.m.t. að gera tölfræðilegar úttektir árlega er varða áætlunina, sinna eftirfylgni, endurskoða og gera tillögur um breytingar ef þörf krefur.
Ráðningar og starfskjör
Jafnrétti ríkir við ráðningar starfsmanna og laus störf eru opin jafnt konum sem körlum. Í auglýsingum um störf kemur fram að við ráðningar sé tekið mið af jafnréttisstefnu.
Verði tveir eða fleiri umsækjendur um starf metnir jafn hæfir, verði umsækjandi valinn af því kyni sem er í minnihluta á umræddu sviði eða starfshópi.
Konur og karlar skulu hafa jöfn laun og njóta sambærilegra kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Ákvarðanir um laun og annað sem áhrif hefur á kjör skulu byggjast á málefnalegum forsendum óháð kyni.
Stefnt er að jöfnu hlutfalli kvenna og karla í starfshópum og innan sviða.
Starfsþróun
Karlar og konur hafa jafnan aðgang og tækifæri til starfsþróunar, hvers konar fræðslu og framgangs í starfi. Fræðsla innanhúss skal höfða bæði til karla og kvenna.
Starfsfólk er valið í vinnuhópa og nefndir út frá faglegum forsendum. Þátttaka og ábyrgð starfsmanna í hópum og nefndum skal vera jöfn eftir kynjum svo framarlega sem faglegar forsendur leyfa.
Samræming starfs og einkalífs
Velferð einstaklinga í einkalífi fer saman við líðan þeirra og árangur í starfi. Leitast skal við að skapa körlum og konum aðstæður til að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu.
Starfsmönnum er gert kleift að samræma starf og fjölskylduábyrgð með gagnkvæmum sveigjanleika í vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu, eftir því sem við verður komið.
Bæði kyn eru hvött til að nýta sér fæðingarorlof og foreldar eru hvattir til að skipta með sér heimaveru vegna veikinda barna.
Einelti og kynferðisleg eða kynbundin áreitni eða ofbeldi
Einelti og kynbundin áreitni eða ofbeldi er ekki liðið innan embættisins. Embættið hefur mótað stefnu og viðbragðsáætlun vegna eineltis, kynferðislegrar áreitni og annarrar óviðeigandi hegðunar.
Samskipti og starfsemi embættisins
Starfsfólk Sýslumannsins á
höfuðborgarsvæðinu vinnur störf sín með jafnrétti að leiðarljósi.
Starfsfólk skal sýna
samstarfsfólki og viðskiptavinum fulla virðingu án tillits til kynferðis,
skoðana, aldurs eða efnahags, trúarbragða, litarháttar og þjóðernis,
kynhneigðar eða stöðu þeirra að öðru leyti.
Starfsfólk skal ekki haga
samskiptum sínum þannig að þau ýti undir eða styðji staðalímyndir eða hefðbundnar
kynjaímyndir.
Samþætta skal
jafnréttissjónarmið við starfsemi og þjónustu embættisins.
Útg. 16.2.2017