Ákæruvald

Skipan ákæruvalds

Samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991með áorðnum breytingum fara ríkissaksóknari og lögreglustjórar, þar með talinn ríkislögreglustjórinn, með ákæruvaldið í landinu.

Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds og sæta lögreglustjórar eftirliti og leiðsögn af hálfu ríkissaksóknara í störfum sem ákærendur og handhafar ákæruvalds.

Lögreglustjórum er heimilt að höfða mál vegna algengustu brota samkvæmt almennum hegningarlögum, þ. e. vegna annarra brota en upp eru talin hér á eftir svo og vegna allra sérrefsilagabrota.

Ríkissaksóknari höfðar opinber mál ef um er að ræða eftirgreind brot á almennum hegningarlögum:

 • a. brot á ákvæðum X.- XVI. kafla laganna, sem varðar landráð, brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess, brot á almannafriði og allsherjarreglu, rangur framburður og rangar sakargiftir svo og peningafals og önnur brot, er varða gjaldmiðil.
 • b. brot á ákvæðum XVII. kafla laganna, er varðar skalafals og önnur brot er varða sýnileg sönnunargögn þó ekki 155.?158. gr.,
 • c. brot á ákvæðum XVIII.?XXII. kafla laganna, sem varðar brot sem hafa í för með sér almannahættu, ýmis brot á hagsmunum almennings,brot á reglum um framfærslu og atvinnuháttu, sifjaskaparbrot og kynferðisbrot.
 • d. brot á ákvæðum XXIII. kafla laganna, um manndráp og líkamsmeiðingar, öðrum en 215. og 219. gr., ef brot tengist broti á umferðarlögum, og 217. gr. og 1. mgr. 218. gr.,
 • e. brot á ákvæðum XXIV. og XXV. kafla laganna, sem varðar brot gegn frjálsræði manna og ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. öðrum en 231., 232. og 233. gr.,
 • f. brot á 251. og 252. gr. laganna.


Hlutverk ákærenda

Ákærendur fara með opinbert vald, ákæruvald, og hafa það hlutverk að tryggja, fyrir hönd samfélagsins og í almannaþágu, að þeir sem afbrot fremja verði beittir lögmæltum viðurlögum.

Af ýmsum ákvæðum laga um meðferð opinberra mála má ráða hver eru megin viðfangsefni ákærenda og skal þeirra getið hér:

Ákærendur taka ákvörðun um hvort opinber rannsókn (sakamálarannsókn) sem lögreglan framkvæmir skuli fara fram eða ekki. Ber þeim að hafa í huga að ekki á að hefjast handa um opinbera rannsókn nema rökstuddur grunur sé kominn fram um að refsiverð háttsemi, sem á undir ákæruvaldið, hafi átt sér stað. Markmið rannsóknar er að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómstólum.

Ákærendum ber að leiðbeina lögreglumönnum um framkvæmd rannsókna og gefa fyrirmæli um framkvæmd hennar eftir því sem þörf kann að vera á. Ber þeim að tryggja að fylgt sé fyrirmælum laga um rannsóknir mála og að gætt sé grundvallar mannréttinda við rannsóknir. Halda skulu þeir í heiðri þá reglu að ekki má færa fram til styrktar sönnun í máli sakargögn sem aflað hefur verið með ólöglegum eða óheiðarlegum hætti.

Samkvæmt íslenskum réttarfarslögum á brotaþoli að njóta aðstoðar í ýmsum greinum á meðan mál sem hann varðar er rekið og hann á jafnframt rétt á að fá upplýsingar um rekstur málsins og framgang. Ákærendur eiga að sjá til þess að brotaþoli njóti viðeigandi aðstoðar og fái þær upplýsingar sem honum ber.

Ákærendur ákveða hvað gera skuli í máli að lokinni rannsókn þess og eru þeir kostir helstir sem hér skal greina:

 • Höfða ber mál fyrir dómstóli til refsingar ef það sem fram er komið við rannsókn er talið vera nægjanlegt eða líklegt til sakfellis en láta ella við svo búið standa. Er þetta meginregla sem fylgja skal.
 • Lögreglustjórar (ákærendur) mega ljúka tilteknum málum án þess að leggja þau fyrir dómstól með ákæru. Er málum þá lokið með lögreglustjórasátt og getur sáttin verið fólgin í því að sakborningur greiðir tiltekna sekt og sætir sviptingu ökuréttar allt að einu ári og/eða þoli upptöku eigna að ákveðnu marki. Eru það einkum mál vegna umferðarlagabrota sem lokið er með lögreglustjórasáttum. Mál sem lokið er með lögreglustjórasátt eru ekki lögð fyrir dómstóla með ákæru.
 • Ákærandi getur fellt mál niður, þ.e.a.s. ákveðið að ekki komi til frekari aðgerða af hálfu ákæruvalds í máli.  Áður en ákærandi tekur slíka ákvörðun ber honum að kanna gögn máls vandlega og leggja hlutlægt mat á stöðuna með þá reglu að leiðarljósi að sækja skal þá til sakar sem ákærandi telur að hafi gerst sekir um brot gegn refsilögum en aðra ekki.
 • Ákærandi getur ákveðið að falla frá saksókn í máli þótt hann telji framkomin gögn nægja til þess að sakborningur verði sakfelldur í máli ef höfðað yrði á hendur honum. Til þessa hefur ákærandi takmarkaða heimild og ber honum að beita henni af varfærni.
 • Þegar sakborningur hefur játað brot sitt hefur ákærandi heimild til að fresta um tiltekinn tíma útgáfu ákæru til refsingar út af því ef tiltekin skilyrði eru uppfyllt. Gildir þessi heimild fyrst og fremst um brot barna og ungmenna á aldrinum 15 til 21 árs.

Þá annast ákærendur sókn þeirra mála sem þeir hafa höfðað fyrir dómstólum til refsingar.

Almennar upplýsingar

Ýmsar upplýsingar um meðferð ákæruvalds, svo sem um ákærur, um áfrýjun sakamála, réttarstöðu brotaþola og um sakavottorð er að finna á heimasíðu ríkissaksóknara www.saksoknari.is.

 

                                                                                                                                                                                                   Uppf. 29.06.2007.