Leyfi til sölu gistingar, veitinga og skemmtanahalds - heimagisting

Fjallað er um leyfi til sölu gistingar, til sölu veitinga, til skemmtanahalds o.fl. í lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og reglugerð sama efnis nr. 1277/2016 .  Þá fær hugtakið heimagisting nýtt inntak með lögum nr. 67/2016 um breytingu á lögum nr. 85/2007. Tóku þau lög gildi 1. janúar 2017.  Sjá hér.

Í upphaf árs 2017 tóku gildi lög nr. 67/2016 sem fela í sér nokkrar breytingar á lögum nr. 85/2007 og er unnið að breytingu á þessari umfjöllun með hliðsjón af því.

Sú starfsemi sem lögin taka til er sem hér segir:

 • Leyfi til sölu á gistingu.
 • Leyfi til sölu hvers kyns veitinga í atvinnuskyni á veitingastöðum, gististöðum og víðar, hvort sem er í mat eða drykki, bæði áfengra og óáfengra.
 • Tækifærisleyfi til skemmtanahalds, það er leyfi til einstakra skemmtana og atburða í atvinnuskyni inni eða úti, sem fram fara utan veitinga- og gististaða og eru til þess fallnir að valda ónæði, svo sem vegna hávaða, og kalla á eftirlit og/eða löggæslu. Hér undir geta fallið til dæmis útihátíðir, útitónleikar, skóladansleikir og tjaldsamkomur. 
 • Tímabundin áfengisveitingaleyfi á stöðum eða í húsakynnum þar sem ekki er rekstrarleyfi.
 • Leyfi til útleigu samkomusala í atvinnuskyni.
 • Heimagisting , sem er gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu. 

Flokkun veitinga- og gististaða

Í lögum og reglugerð um veitinga- og gististaði eru gististaðir flokkaðir eftir því hvort veitingar eru jafnframt á boðstólum á viðkomandi gististað, en veitingastaðir eru flokkaðir eftir þörf á eftirliti og áhrifum starfsemi á umhverfi, svo sem vegna afgreiðslutíma, hávaða og áfengisveitinga. Þá ræðst fjárhæð gjalds til ríkissjóðs fyrir útgáfu rekstrarleyfis af þessari flokkun.
Flokkunin er sem hér segir:

Gististaðir

 • Flokkur I    Heimagisting  (Breytist 1. janúar 2017). 
 • Flokkur II   Gististaður án veitinga
 • Flokkur III  Gististaður með veitingum en þó ekki áfengisveitingum
 • Flokkur IV  Gististaður með minibar
 • Flokkur  V  Gististaður með bar og/eða veitingaaðstöðu þar sem áfengi er veitt.

Veitingastaðir

 •  Flokkur I    Staður án áfengisveitinga.
 • Flokkur II    Umfangslitlir áfengisveitingastaðir, þar sem starfssemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu svo sem með háværri tónlist og afgreiðslutími er ekki lengri en til kl. 23.00 og kalla  ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu.
 • Flokkur III    Umfangsmiklir áfengisveitingastaðir, svo sem þar sem leikin er hávær tónlist og/eða afgreiðslutími er lengri en til kl. 23:00 og kalla á meiri eftirlit og/eða löggæslu.

Tegundir veitinga- og gististaða

Í reglugerð um veitinga- og gististaði eru þeir flokkaðir í samræmi við þá starfsemi sem rekstrarleyfi viðkomandi staðar hljóðar um og er sem hér segir:

Gististaðir

Skiptast í eftirfarandi tegundir eftir búnaði og aðstöðu sem bjóða skal gestum:

 • Hótel: Gististaður þar sem gestamóttaka er opin allan sólarhringinn og morgunverður framreiddur.  Fullbúin snyrting skal vera með hverju herbergi. Undanþágu má þó veita fyrir hluta herbergja. Þó skal alltaf vera handlaug í hverju herbergi og fullbúin snyrting nærliggjandi.
 • Gistiheimili: Gististaður með takmarkaða þjónustu. Handlaug skal vera í hverju herbergi og salerni nærliggjandi. Jafnframt skulu gestir eiga aðgang að fullbúinni baðaðstöðu.
 • Gistiskáli: Svefnpokagisting í herbergjum eða svefnskálum. Hér undir falla fjallaskálar.
 • Heimagisting: Gisting á heimili leigusala.  (Breytist 1. janúar 2017).  
 • Íbúðir: Íbúðarhúsnæði sérstaklega ætlað til útleigu til gesta og fellur ekki undir húsaleigulög.  Hér undir falla starfsmannabústaðir og starfsmannabúðir þegar slíkt húsnæði er ekki leigt út í tengslum við vinnusamning.
 • Sumarhús: Gististaður í orlofs- og frístundahúsum sem ætluð er til útleigu til gesta. Orlofshús félagasamtaka eru undanskilin.

Veitingastaðir

skiptast í eftirtaldar tegundir eftir starfsemi og þjónustu sem bjóða skal viðskiptavinum:

 • Veitingahús: Veitingastaður með fjölbreyttar veitingar í mat og drykk og fulla þjónustu. Íveitingahúsi skal vera starfandi maður með fullnægjandi þekkingu í framreiðslu.
 • Skemmtistaður: Veitingastaður með reglubundna skemmtistarfsemi, fjölbreyttar veitingar í mat og/eða drykk og fullkomna þjónustu. Hér undir falla einnig staðir þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar, dans gesta, tónlist og langan afgreiðslutíma en engar eða takmarkaðar veitingar í mat.
 • Veitingastofa og greiðasala: Veitingastaðir með fábreyttar veitingar í mat og/eða drykk. Á slíkum stöðum er takmarkaðri þjónusta og/eða gestir afgreiða sig sjálfir að hluta eða öllu leyti.  Hér undir falla t.d. mötuneyti og skyndibitastaðir og einnig söluskálar með aðstöðu til neyslu veitinga.
 • Veisluþjónusta og veitingaverslun: Staðir þar sem fram fer sala veitinga sem ekki er til neyslu á staðnum enda er slík sala meginstarfsemi staðarins.
 • Kaffihús: Veitingastaður með einfaldar veitingar í mat og/eða drykk þar sem aðaláhersla er lögð á kaffiveitingar. Hér undir falla t.d. bakarí sem hafa aðstöðu til neyslu veitinga á staðnum.
 • Krá: Veitingastaður með takmarkaða þjónustu og einfaldar eða engar veitingar í mat, þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar og langan afgreiðslutíma.
 • Samkomusalir: Staðir sem eru sérstaklega útbúnir og ætlaðir til hvers kyns samkomuhalds og til þess leigðir út í atvinnuskyni til einstaklinga og/eða fyrirtækja, hvort sem er með eða án veitinga í mat og/eða drykk. Félagsheimili, íþróttasalir, flugskýli, vöruskemmur og önnur húsakynni sem að jafnaði eru ekki ætluð til samkomuhalds í atvinnuskyni geta fallið hér undir ef útleiga til skemmtanahalds fer oftar fram en tólf sinnum á ári.

Leyfisveitendur

Umsókn um leyfi til sölu gistingar, veitinga, skemmtanahalds eru afgreidd hjá leyfisveitanda í því umdæmi sem hin leyfisskylda starfsemi á að fara fram. Leyfisveitendur eru sýslumenn, hver í sínu umdæmi. 

Rekstrarleyfi

Skilyrði sem umsækjandi um rekstrarleyfi þarf að uppfylla:

 1. hafa búsetu á Íslandi.
 2. vera lögráða og hafa náð a.m.k. 20 ára aldri á umsóknardegi.
 3. hafa forræði á búi sínu.
 4. hafa tilkynnt atvinnurekstur til skráningar hjá viðkomandi skattstjóra.
 5. hafa ekki á síðustu fimm árum gerst sekur um háttsemi sem varðar við almenn hegningarlög, lög um ávana- og fíkniefni, lög um hlutafélög, lög um einkahlutafélög, lög um bókhald, lög um ársreikninga, lög um tekjuskatt, lög um virðisaukaskatt, lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, lög um tryggingagjald né lög þessi sem og reglur settar samkvæmt tilgreindum lögum.
 6. hafa ekki verið sviptur leyfi til rekstrar gististaðar, veitingastaðar eða áfengisveitinga á síðustu fimm árum frá umsókn.
 7. skulda ekki skatta, opinber gjöld eða iðgjöld í lífeyrissjóð sem nema samanlagt hærri fjárhæð en 500.000 kr.

Ákvæði c–g liðar gilda jafnt um umsækjanda sem er lögaðili og forsvarsmann umsækjanda.

Umsókn um rekstrarleyfi og gögn sem henni þurfa að fylgja

Gögn sem þarf ef fyrirtæki sækir um (lögaðili):

 • Vottorð um búsforræði fyrirtækis.
 • Staðfest virðisaukanúmer.
 • Vottorð frá viðkomandi lífeyrissjóði um skuldastöðu.
 • Vottorð ríkissjóðs um skuldastöðu
 • Teikningu (1 eintak A4) samþykkta af byggingafulltrúa. Ef um blandaða notkun húsnæðis  er að ræða skal fylgja staðfest afrit af aðaluppdrætti þar sem fram kemur afmörkun þess rýmis sem ætlað er fyrir reksturinn og skal tilgreina stærð þess í fermetrum.
 • Afrit af tilkynningu fyrri leyfishafa um að hann hafi hætt rekstri.
 • Ef sótt er um útiveitingaleyfi skal fylgja teikning þar sem fram kemur stærð útisvæðis og fjöldi borða.

Gögn sem þarf um fyrirsvarsmann/menn lögaðila:

 • Sakavottorð
 • Búsetuvottorð
 • Forræðisvottorð
 • Vottorð ríkissjóðs um skuldastöðu (ekki eldra en tveggja mánaða við útgafu leyfis).

Gögn sem þarf um þann sem tilnefndur er af lögaðila sem ábyrgðarmaður ef annar en fyrirsvarsmaður:

Gögn sem þarf ef einstaklingur sækir um:

 • Sakavottorð
 • Búsetuvottorð
 • Vottorð viðkomandi héraðsdóms um búsforræði fyrirsvarsmanna.
 • Vottorð um búsforræði ábyrgðarmanns.
 • Vottorð frá lífeyrissjóði um skuldastöðu.
 • Staðfest virðisaukanúmer. Skattstjórinn, virðisaukaskrifstofa.
 • Teikningu (1 eintak A4) samþykkta af byggingafulltrúa. Ef um blandaða notkun húsnæðis er að ræða skal fylgja staðfest afrit af aðaluppdrætti þar sem. fram kemur afmörkun þess rýmis sem ætlað er fyrir reksturinn og skal tilgreina stærð þess í fermetrum.
 • Afrit af tilkynningu fyrri leyfishafa um að hann hafi hætt rekstri
 • Útiveitingaleyfi. Teikning þar sem fram kemur stærð útisvæðis og fjöldi borða.

Gildistími rekstrarleyfis 

Rekstrarleyfi skal veitt til fjögurra ára í senn og getur leyfishafi sótt um endurnýjun leyfis að þeim tíma loknum. Sótt skal um endurnýjun að minnsta kosti tveimur mánuðum áður en leyfið rennur út. Heimilt er að veita rekstrarleyfi til skemmri tíma en fjögurra ára óski umsækjandi eftir því eða sérstakar ástæður mæla með því en þó ekki til skemmri tíma en eins árs.   

Endurnýjun rekstrarleyfis

Leyfishafi sem vill endurnýja rekstrarleyfi sitt skal sækja um það hjá leyfisveitanda að minnsta kosti tveimur mánuðum áður en gildandi rekstrarleyfi rennur út. Meðan umsókn um endurnýjun er til meðferðar er leyfisveitanda heimilt að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða með sömu skilmálum og giltu um hið fyrra rekstrarleyfi, til allt að þriggja mánaða.

Gildistími bráðabirgðaleyfis verður þó aldrei lengri en þrír mánuðir frá því að rekstrarleyfi rann út.  Að þeim tíma liðnum verður bráðabirgðaleyfi ekki framlengt nema tafir á afgreiðslu endurnýjunar sé ekki að rekja til umsækjanda. 

Óheimilt er að gefa út bráðabirgðarekstrarleyfi hafi umsókn um endurnýjun borist eftir að fyrra rekstrarleyfi rann út.

Við mat á umsókn um endurnýjun skal taka mið af því hvernig starfsemi hefur gengið á leyfistíma og þeirri reynslu sem fengist hefur af rekstrinum.  Ef ekki er um breytingar á starfsemi að ræða og starfsemi hefur verið athugasemdalaus af hálfu eftirlitsaðila á leyfistíma er leyfisveitanda heimilt að gefa út nýtt rekstrarleyfi án þess að leita umsagna.

Breyting er varða rekstrarleyfi og leyfishafa


Leyfishafi skal tilkynna leyfisveitanda þegar í stað um fyrirhugaðar breytingar sem varða hina leyfisskyldu starfsemi. Kalli þær á breytingar á skilmálum gildandi rekstrarleyfis skal sótt um slíkar breytingar sérstaklega til leyfisveitanda.

Taki nýr aðili við rekstri sem leyfi er fyrir samkvæmt lögum þessum eða hyggist leyfishafi hætta hinni leyfisskyldu starfsemi skal það tilkynnt leyfisveitanda án tafar. Leyfishafi ber ábyrgð á rekstrinum þar til slík tilkynning hefur borist leyfisveitanda en nýr aðili sem við rekstrinum tekur frá þeim tíma og skal hann þegar í stað sækja um nýtt rekstrarleyfi.

Með umsókn skv. 1.–2. mgr. skal að jafnaði fara eftir ákvæðum 9.–11. gr. eftir því sem við á. Leyfisveitanda er þó heimilt að falla frá öflun umsagna skv. 10. gr. að öllu leyti eða hluta ef um umsókn skv. 2. mgr. er að ræða telji hann slíkt óþarft, svo sem ef ekki er um breytingar að ræða á starfsemi sem rekstrarleyfi tekur til. Um umsókn og skilyrði fyrir rekstrarleyfi fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga þessara.

Á meðan umsókn skv. 1.–2. mgr. er til meðferðar má leyfisveitandi gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða með sömu skilmálum og giltu um hið fyrra leyfi, til allt að þriggja mánaða. Að liðnum þriggja mánaða gildistíma bráðabirgðaleyfis verður bráðabirgðaleyfi einungis framlengt ef umsækjanda verður ekki kennt um tafir á útgáfu rekstrarleyfis.

Leyfisveitandi skal tilkynna umsagnaraðilum um nýjan rekstraraðila eftir því sem við á.

Gildistími rekstrarleyfis sem sótt er um breytingar á skv. 1. mgr. breytist ekki við breytingar á starfsemi nema leyfisveitandi telji sérstakar ástæður til þess. Við gjaldtöku vegna viðbótarstarfsemi skal miða við mismun gjalds vegna upphaflegs rekstrarleyfis og gjalds fyrir rekstrarleyfi eftir breytingu.

Gjald fyrir rekstrarleyfi

Um gjald fyrir rekstrarleyfi fer samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991

Það fer eftir flokkun gististaða og veitingastaða samkvæmt 3. og 4. gr. laga nr. 85/2007 hver fjárhæð gjaldsins er. Sama á við um endurnýjun rekstrarleyfis.   

Hér má finna nánari upplýsingar um gjald fyrir gistileyfi og veitingaleyfi.

Aðrar upplýsingar

 Hér á vef sýslumanna má finna lista yfir útgefin veitinga- og gistileyfi (rekstrarleyfi) sem eru í gildi. 

Frekari upplýsingar um rekstrarleyfi þar á meðal um flokkun veitinga- og gististaða má finna í lögum og reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald svo og á þeim umsóknareyðublöðum fyrir leyfi sem útbúin hafa verið og nálgast má hér að ofan. 

Vakin skal athygli á ákvæðum 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um veitinga- og gististaði þar sem segir að gisting sé leiga á húsnæði gististaðar til gesta gegn endurgjaldi sem ekki falli undir 7. mgr. 1. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994.  Í tilvitnuðu ákvæðinu segir að húsaleigulög gildi ekki um samninga hótela, gistihúsa og sambærilegra aðila við gesti sína, né um skammtímaleigu á húsnæði, svo sem orlofsheimilum, sumarhúsum, samkomuhúsum, íþróttasölum, herbergjum eða geymsluhúsnæði, þegar leigugjald er miðað við viku, sólarhring eða skemmri tíma.  Með öðrum orðum þegar leiga eða önnur afnot húsnæðis gegn gjaldi miðast við lengri tíma en viku í senn gilda ákvæði húsaleigulaga en ekki löggjöf um veitinga- og gististaði.

 

Uppfært 15. október 2014.