Málsmeðferðarreglur

Drög að reglum um málsmeðferð við sáttaumleitun sýslumanns, skv. 107. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði.

Reglur þessar hafa ekki tekið gildi né verið formlega staðfestar en ætla má að stuðst verði við þær í flestum tilvikum.  

 

 

1. gr.   Heimild og fyrirsvar

1.  Heimilt er einstaklingum og lögaðilum að leita sátta fyrir sýslumanni í ágreiningi einkaréttareðlis sem þeir hafa forræði á og lög og landsréttur nær til.    

 

2. gr.   Umdæmi

1. Sáttaumleitan skal að jafnaði fara fram hjá sýslumanni í umdæmi þar sem einhver aðila, báðir eða allir, á lögheimili, þar sem atvik varð eða ágreiningur stofnaðist sem er tilefni sáttaumleitunar. Aðilar geta og komið sér saman um hjá hvaða sýslumanni eigi að leita sátta.

2. Með samþykki aðila er heimilt að annar sýslumaður en mál hófst hjá taki við sáttaumleitun.

 

3. gr.   Form beiðni um sáttaumleitan - tilkynning til aðila  

1.  Aðili eða aðilar sem óska eftir að sýslumaður leiti sátta í máli skulu afhenda honum skriflega beiðni um sáttaumleitan. Í beiðni skal tilgreina nöfn beggja eða allra aðila, kennitölu og heimili og ef unnt er símanúmer og netfang.  Þar skal og vera lýsing málavaxta og kröfur eða hugmyndir um niðurstöðu máls.  Með beiðni um sáttaumleitun skal láta sýslumanni í té málsgögn í þeim mæli sem hann telur þörf á.   

2.  Ef aðilar rita ekki báðir eða allir undir beiðni um sáttaumleitun skal sýslumaður að ósk aðila sem óskar eftir að leitað verði sátta senda þeim, sem leitað er sátta með og ekki hefur undirritað beiðni, bréf þar sem fram komi að beiðni um sáttaumleitan hafi borist og óska eftir staðfestingu hans bréflega, í tölvupósti eða með öðrum sannanlegum hætti innan tiltekins frests á að vilji sé til sáttaumleitunar sýslumanns. Einnig getur annar eða einn aðili máls bókað sáttafund hjá sýslumanni með óformlegu samþykki gagnaðila sem staðfest er skriflega við upphaf sáttaumleitunar.   Ef móttakandi sinnir ekki erindi sýslumanns, mætir ekki eða fellst ekki á sáttaumleitan skal mál fellt niður.     

 

4. gr.   Fundarstaður

1. Ef aðilar fallast á að sáttaumleitun fari fram hefur sýslumaður sáttaumleitan sem að jafnaði skal fara fram fyrir luktum dyrum í skrifstofu sýslumanns nema sýslumaður telji annan stað henta betur. Ef sérstaklega stendur á að mati sýslumanns er aðila heimilt að vera í sambandi við sýslumann og gagnaðila á sáttafundi símleiðis eða með samsvarandi hætti. 

  

5. gr.   Heimild til að sækja sáttafund

1.  Heimilt er umboðsmanni að koma fram fyrir hönd aðila sem leitar sáttar svo og er aðilum, að fengnu samþykki sýslumanns, heimilt að hafa með sér aðstoðarmann eða ráðgjafa á sáttafundi hjá sýslumanni enda sé öðrum aðilum málsins gert kunnugt um það með hæfilegum fyrirvara.

 

6. gr.   Málsmeðferð

1. Sýslumaður vísar beiðni um sáttaumleitan þegar frá ef hann telur sáttatilraun þýðingarlausa eða málsefni ekki falla undir reglur þessar.  Skylt er honum að rökstyðja slíka ákvörðun skriflega ef þess er óskað af hálfu einhvers aðila máls.

2. Ef sýslumaður tekur beiðni um sáttaumleitun til efnismeðferðar skal hann leitast við að leiðbeina ólöglærðum aðilum um hvað sáttaumleitun felur í sér og þýðingu hennar eftir því sem hann telur þörf á.

3. Á sáttafundi hjá sýslumanni skal aðilum eða aðstoðarmönnum þeirra heimilt að skýra sjónarmið sín munnlega frammi fyrir sýslumanni og gagnaðila.  Að jafnaði skal ekki heimilað að leiða fram vitni eða sérfræðinga til skýrslugjafar um einstök atriði.  Heimilt er að kynna gögn á öllum stigum sáttameðferðar.

4. Sýslumanni er heimilt að benda á atriði í málatilbúnaði aðila sem getur skipt máli við niðurstöðu málsins og eins sett fram tillögu að niðurstöðu í máli.

5. Sýslumaður ákveður fyrirkomulag sáttafundar, þ.á m. hversu oft aðilum er heimilt að tjá sig um málsefni. Skulu aðilar í hvívetna fara að tilmælum hans um það og að öðru leyti lúta boði hans um góða reglu á sáttafundi.

6. Ef sýslumaður telur það henta er honum heimilt að kalla sér til fulltingis sérfræðing eða aðstoðarmann á sáttafund .

7. Sýslumaður skal synja aðilum um að staðfesta sátt ef hann telur ólögmætt að gera hana, efni hennar óljóst eða ómögulegt að efna hana  

8. Ef sýslumaður telur sáttaumleitun sem hafin er þýðingarlausa skal frekari sáttaumleitunum hætt.  Sýslumanni er ekki skylt að láta í té sérstakan rökstuðning fyrir ákvörðun um að hætta sáttaumleitunum.

 

7.  gr.   Sérfundir með aðilum

1. Sýslumanni er heimilt að ræða einslega við aðila og aðstoðarmenn þeirra fyrir og eftir sáttafund ef hann telur það henta.  Skal gagnaðila kunngert að aðili hafi rætt einslega við sýslumann og honum gefin kostur á því sama.

 

8.  gr.   Gögn og kynning sjónarmiða við meðferð máls

1. Aðila skal á sáttafundi hjá sýslumanni heimilt að sjá öll gögn og heyra öll sjónarmið sem gagnaðili byggir kröfur sínar á.  Þá skal aðili eiga rétt á eintaki í ljósriti af gögnum er gagnaðili leggur fram til stuðnings kröfum sínum ef hann óskar nema sýslumaður ákveði annað.

 2. Sýslumaður skal varðveita eintak helstu gagna í ljósriti sem lögð eru fram við meðferð máls.  

 

9.  gr.   Þagnarskylda

1. Aðila er heimilt að óska eftir að farið verði með upplýsingar í trúnaði, sem hann lætur í té við sáttaumleitun og skal þá orðið við því að fengnu samþykki sýslumanns. Um aðgang að gögnum sem byggt er á á sáttafundi fer að reglum laga um meðferð einkamála í héraði.  

10. gr.   Bókanir á sáttafundum

1. Bóka skal í gerðabók eða skrá í tölvu helstu atriði sáttafundar, svo sem aðila, stað og stund sáttafundar, efni sáttar og eftir atvikum um aðfararhæfi sáttar.  Skulu aðilar undirrita bókun þar að lútandi.

2. Sýslumaður ákveður hvað bókað er við meðferð máls.  

  

11. gr.   Frestir

1. Sýslumanni er heimilt að  fresta sáttafundi sem þegar er hafinn og byrja fund að nýju síðar ef hann telur það henta.

 

12. gr.   Tímamörk   

1. Mál skal tekið fyrir svo fljótt sem verða má og að jafnaði ekki síðar en að liðnum fjórum vikum frá því að beiðni var móttekin og því að jafnaði lokið innan fjögurra vikna frá því að það var fyrst tekið fyrir.   

 

13. gr.   Endurskoðun sáttar

1. Með samþykki beggja eða allra aðila má taka mál fyrir að nýju til breytinga á niðurstöðu sáttar þótt um það hafi áður verið gerð sátt.

 

14. gr.   Umfang sáttar

1. Gera má sátt um önnur atriði en koma fram í beiðni ef aðilar eru ásáttir um það.

 

15. gr.   Málskot

1. Um málskot á ákvörðunum sýslumanns eða meðferð máls við sáttaumleitun fer að reglum stjórnsýslulaga.   Ágreiningi um formhlið máls má skjóta til dómsmálaráðuneytisins.

 

16. gr.   Málskrá

1. Haldin skal málaskrá (fyrir landið allt) um mótteknar beiðnir um sáttaumleitanir og ágreiningsatriði  og niðurstöður mála skráðar þar.

 

17. gr.   Vottorð

1. Sýslumaður skal veita aðila staðfestingu á að hann hafi óskað sáttaumleitunar og hverjar lyktir máls hafi orðið komi fram ósk um það.

- - -

- - -

Ef óskað er sáttaumleitunar sýslumanns má notast við sérstakt eyðublað sem nálgast má og fylla út á vefnum hér

 

Uppfært 21.10.2008