Kyrrsetning

Hvað er kyrrsetning?

Um kyrrsetningu er fjallað í II. kafla laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Skv. þeim er kyrrsetning bráðabirgðaaðgerð, gerð í þeim tilgangi að leggja veðbönd á fjármuni til bráðabirgða þar til aðfararheimild fæst.  

Hvenær er hægt að krefjast kyrrsetningar?
Kyrrsetning er úrræði sem unnt er að beita þegar gerðarbeiðandi, sem á lögvarða kröfu um greiðslu peninga, getur sýnt fram á að hagsmunum hans sé raunverulega stefnt í hættu á meðan hann aflar sér aðfararheimildar fyrir dómstóli skv. 5. gr. laga 31/1990. Gerðarbeiðandi þarf yfirleitt að leggja fram tryggingu áður en gerðin er tekin fyrir. Gerðin og afleiðing hennar geta bakað gerðarþola tjón. Ef síðar kemur í ljós að krafa gerðarbeiðanda átti ekki rétt á sér, er tryggingunni ætlað að gera gerðarþola eins settan og gerðin hefði aldrei farið fram.

Hvernig fer kyrrsetning fram?
Gerðarbeiðandi leggur fram beiðni um kyrrsetningu og telji sýslumaður skilyrðum vera fullnægt boðar hann gerðarþola til gerðarinnar eða tekur hana fyrir á lögheimili gerðarþola. Mæti gerðarþoli til gerðarinnar eða hittist fyrir á lögheimili sínu er honum kynnt krafa gerðarbeiðanda og leiðbeint um réttarstöðu sína, m.a. að hann geti lagt fram tryggingu til að afstýra gerðinni. Komi ekki fram mótmæli frá gerðarþola er valda því að gerðin sé stöðvuð er gerðarþoli inntur eftir hvort hann eigi eignir sem nægi til tryggingar kröfunni. Mæti hann ekki til gerðarinnar eða hittist ekki fyrir er unnt að ljúka gerðinni ef gerðarbeiðandi bendir á eignir.

Hver eru réttaráhrif kyrrsetningar?
Þau eru nokkurn vegin þau sömu og réttaráhrif fjárnáms. Við kyrrsetningu eru lögð veðbönd á þá fjármuni sem kyrrsettir hafa verið Gerðarbeiðandi verður að höfða staðfestingarmál fyrir héraðsdómi innan viku frá því að kyrrsetingargerðinni lauk. Annars fellur kyrrsetningin niður.

Kostnaður við kyrrsetningu, sjá  hér