Andlát og dánarbú

Almennt

Andlát manns hefur í för með sér ýmis réttaráhrif, ekki síst fjárhagsleg. Til verður sérstakur lögaðili, dánarbú, sem tekur við flestum fjárhagslegum réttindum og skyldum hins látna þar til þau hafa verið leidd til lykta.  Um þessi atriði er einkum fjjallað í lögum nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og að hluta lögum nr. 8/1962, erfðalögum.

Andlát manns ber erfingjum eða aðstandendum hins látna að tilkynna til sýslumanns í umdæmi þar sem hinn látni bjó svo skjótt sem við verður komið.  Það er gert með því að afhenda dánarvottorð á skrifstofu sýslumanns.  Ef sérstaklega stendur á má afhenda sýslumanni í öðru umdæmi en þar sem hinn látni átti lögheimili dánarvottorðið, sem þá framsendir það sýslumanni í umdæmi þar sem hinn látni átti lögheimili. 

Dánarvottorð fæst á sjúkrahúsi þar sem hinn látni lést eða hjá lækni sem annast hefur hinn látna.  Ef dánarvottorð verður af einhverjum ástæðum ekki gefið út þarf að framvísa sönnunargagni um andlátið, sem leggja má að jöfnu við dánarvottorð.

 

Tilkynnandi andláts fær í hendur vottorð frá sýslumanni um að andlátið hafi verið tilkynnt, en þetta vottorð er síðan afhent presti eða öðrum þeim sem annast útför hins látna.   Er óheimilt að láta útför fara fram fyrr en vottorð sýslumanns um tilkynningu andláts hefur verið afhent.

Sýslumanni ber skv. 5. gr.  laga nr. 61/1998 um dánarvottorð, krufningar o.fl. að senda frumrit dánarvottorðsins, til Þjóðskrár, til skráningar á andlátinu í þjóðskrá og til afnota við skýrslugerð um dánarorsakir. Dánarbúið heldur kennitölu hins látna en skráð er að um dánarbú sé að ræða þar sem það á við.

Sjá nánar um tilkynningu andláts handan hlekksins hér til vinstri.    

Innan fjögurra mánaða frá andláti ber erfingum að hlutast til um skipti dánarbús.  Skiptin geta falist í einhverju af eftirtöldu (sjá nánar hér til hliðar):

1. Því er lýst yfir fyrir sýslumanni að dánarbúið sé eignalaust eða að eignir dugi einungis fyrir kostnaði við útför.  Þetta er að jafnaði gert við tilkynningu andláts eða í kjölfar hennar.

2. Eftirlifandi maki hins látna fær leyfi til setu í óskiptu búi.

3. Erfingjar skipta búi einkaskiptum

4. Fram fara opinber skipti á búinu.

Við lok skipta ber að skila erfðafjárskýrslu og greiða erfðafjárskatt af eigum eða verðmætum dánarbús  skv. reglum sem um það gilda.  

  

 Ýmsar gagnlegar upplýsingar um andlát, dánarbú, útför o.fl. er að finna hér á vefnum Ísland.is, www.island.is